Lífið

Ljóst hvað dró Charlbi Dean til dauða

Atli Ísleifsson skrifar
Charlbi Dean á kvikmyndahátiðinni í Cannes í maí síðastliðinn.
Charlbi Dean á kvikmyndahátiðinni í Cannes í maí síðastliðinn. Getty

Suðurafríska leikkonan Charlbi Dean, sem birtist meðal annars í stórmyndinni Triangle of Sadness lést skyndilega í ágúst, 32 ára að aldri. Krufning hefur nú leitt í ljós hvað það var sem dró leikkonuna til dauða.

Talsmaður Réttarlækningastofnunar í New York segir í samtali við Deadline að leikkonan, sem einnig starfaði sem fyrirsæta, hafi látist af völdum blóðeitrunar (e. sepsis) vegna bakteríunnar Capnocytophaga canimorsus.

Um er að ræða alvarlega sýkingu sem getur til leitt til líffærabilunar og getur hún verið lífshættuleg sé hún ekki uppgötvuð í tæka tíð. Dean á að hafa verið í sérstakri hættu þar sem milta hennar var fjarlægt árið 2009 í kjölfar bílslyss.

Dean var flutt á sjúkrahús í New York þann 29. ágúst vegna mikils höfuðverks og lést hún fáeinum klukkutímum síðar.

Auk þess að leika í Triangle of Sadness lék hún á ferli sínum í þáttunum Black Lightning.

Í Triangle of Sadness fór Dean með hlutverk Yaya sem ásamt manni sínum var boðið um borð í ferð skemmtiferðaskips þar sem ýmislegt fer úrskeiðis.

Myndin er í leikstjórn hins sænska Ruben Östlund og vann til fjölda verðlauna á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum í Hörpu fyrr í mánuðinum.


Tengdar fréttir

Suður­afríska leik­konan Charlbi Dean er látin

Suðurafríska leikkonan og fyrirsætan Charlbi Dean, sem fór meðal annars með hlutverk í verðlaunamyndinni Triangle of Sadness og sjónvarpsþáttaröðinni Black Lightning, er látin. Dean varð 32 ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×