Sport

Boris Becker segir að annar fangi hafi reynt að drepa hann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Boris Becker slapp lifandi úr fangelsi.
Boris Becker slapp lifandi úr fangelsi. getty/Chris J Ratcliffe

Boris Becker, fyrrverandi þýska tennisstjarnan, segist hafa lifað af morðtilraun meðan hann sat inni í fangelsi í Bretlandi.

Becker slapp úr fangelsi á dögunum eftir að hafa setið inni í átta mánuði. Hann var upphaflega dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að fela eignir að andvirði hundruða þúsunda punda þegar hann lýsti yfir gjaldþroti árið 2017. Dómurinn var mildaður í fimmtán mánuði og Becker afplánaði átta af þeim.

Becker er nú kominn heim til Þýskalands og í viðtali við þarlenda sjónvarpsstöð sagðist hann hafa komist í hann krappann í fangelsinu. Hann fékk reglulegar morðhótanir frá öðrum fagna sem var ósáttur við að Becker hefði vingast við svarta fanga.

„Ég titraði svakalega. Ég öskraði hátt og um leið komu aðrir fangar og hótuðu honum. Hann var hættulegur. Hann skildi ekki af hverju ég tengdist svörtum föngum svona vel,“ sagði Becker. Hann segir að dvölin í fangelsinu hafi verið mjög einmanaleg.

„Þegar klefahurðin lokast er ekkert eftir. Það er einmanalegasta augnablik ævinnar. Næturnar voru skelfilegar. Þú heyrðir öskrin í fólki sem reyndi að drepa eða skaða sig. Þú sefur ekki,“ sagði Becker.

Hann vann sex risamót á ferli sínum og varð yngsti tenniskappi sögunnar til að fagna risatitli er hann vann Wimbledon-mótið 1985, aðeins sautján ára.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×