Færeyska Kringvarpið greindi frá þessu í gærkvöldi. Johannessen vill ekki staðfesta hvort að átta eða níu ráðherrar verði í nýrri ríkisstjórn, en samkvæmt heimildum Kringvarpsins verða þeir níu.
Jafnaðarflokkurinn vann sigur í þingkosningunum sem fram fóru 8. desember og bendir allt til að nýr lögmaður muni koma úr röðum Jafnaðarflokksins og verði þá Johannesen sem gegndi stöðunni á árunum 2015 til 2019. Þá munu þrír ráðherrar koma úr röðum Jafnaðarflokksins.
Gert er ráð fyrir að fulltrúi úr röðum Þjóðveldis muni fara með ráðuneyti fjármála og eitt ráðuneyti til viðbótar. Þá mun Þjóðveldi fara með þrjú ráðuneyti, auk þess að þingforseti muni koma úr þeirra röðum.
Nýr stjórnarsáttmáli verður nú tekinn fyrir innan flokkanna þriggja og svo kynntur á morgun, fimmtudag.
Þingið mun svo koma saman á morgun, þar sem þingforseti verður valinn og nýr lögmaður kynntur. Ný ríkisstjórn verður svo kynnt til sögunnar seinni partinn á morgun.
Úrslit færeysku þingkosninganna 2022:
- Fólkaflokkurinn: 18,9 prósent, sex þingmenn (2019: 24,5 prósent, átta þingmenn)
- Sambandsflokkurinn: 20 prósent, sjö þingmenn (2019: 20,4 prósent, sjö þingmenn)
- Jafnaðarflokkurinn: 26,6 prósent, níu þingmenn (2019: 22,1 prósent, sjö þingmenn)
- Sjálfstýri 2,7 prósent: (2019: 3,4 prósent, einn þingmann)
- Þjóðveldi: 17,7 prósent, sex þingmenn (18,1 prósent, sex þingmenn)
- Framsókn: 7,5 prósent, þrír þingmenn (4,6 prósent, tvo þingmenn)
- Miðflokkurinn: 6,6 prósent, tvo þingmenn (5,4 prósent, tvo þingmenn)
Bárður á Steig Nielsen, leiðtogi Sambandsflokksins, hefur gegnt embætti lögmanns síðustu ár, en eftir kosningarnar 2019 náðu Sambandsflokkurinn, Fólkaflokkurinn og Miðflokkurinn saman um myndun ríkisstjórnar.
Boðað var til kosninga nú eftir að Bárður vék formanni Miðflokksins, Jenis af Rana, úr embætti utanríkisráðherra.