Innlent

Verðhækkanir hjá Póstinum um áramótin

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins.
Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins.

Þann 1. janúar 2023 mun Pósturinn breyta verði á bréfum, fjölpósti og pakkasendingum innanlands. Verðhækkunin er til komin vegna aukins flutningskostnaðar, svo sem vegna launa og eldsneytis.

„Við höfum reynt eftir bestu getu að halda verðhækkunum í lágmarki en ýmsar kostnaðarhækkanir frá síðustu verðbreytingum neyða okkur til að bregðast við með þessum hætti. Þörf fyrir hækkun er mismunandi eftir vöruflokkum vegna minnkandi umsvifa í sumum þeirra á sama tíma og heimilum fjölgar.

Við hvetjum viðskiptavini okkar til þess að kynna sér þær breytingar sem taka munu gildi nú um áramótin,“ segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins í tilkynningu.

Þá kemur fram að til að mynda hækki verð á pakkasendingum innanlands um fimm til tíu prósent eftir landsvæðum.

„Verðskrá bréfa innanlands tekur einnig breytingum og jafnframt munu einhverjir þyngdarflokkar sameinast sem einfaldar verðskrána. Magn bréfa hefur dregist verulega saman á sama tíma og flutningskostnaður hefur hækkað umtalsvert,“ bætir Þórhildur við.

Nánari upplýsingar um verðbreytingarnar má nálgast á vef Póstsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×