Í kvöld heldur þingnefnd sem rannsakað hefur árásina á þinghúsið þann 6. janúar í fyrra og aðdraganda hennar sinn síðasta opna fund. Á þessum fundi munu þingmenn fara yfir rannsókn þeirra og það hvort nefndin muni leggja til að Trump verði ákærður vegna árásarinnar, þar sem stuðningsmenn hans brutu sér leið inn í þinghúsið með því markmiði að koma í veg fyrir formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna 2020, þegar Joe Biden vann Trump.
Í frétt Washington Post segir að meðlimir nefndarinnar muni greiða atkvæði um það hvort stungið verði upp á ákæru eða ekki. Nefndin hefur varið átján mánuðum í að rannsaka árásina, fara yfir gögn og ræða við fjölmörg vitni.
Leggi nefndin til að ákæra Trump verður það forsvarsmanna Dómsmálaráðuneytisins að ákveða hvort tilefni sé til eða ekki.
Sjá einnig: Búist við ákæru á hendur Trump vegna árasar á þinghúsið
Búist er við því að nefndin muni greiða atkvæði um þrjár mögulegar ákærur. Ein snýr að því að koma í veg fyrir störf þingsins og önnur að samsæri gegn Bandaríkjunum. Sú þriðja snýr að uppreisn.
Tveir Repúblikanar eru í nefndinni, þau Liz Cheney og Adam Kinzinger. Bæði eru andstæðingar Trumps innan flokksins. Kinzinger er að hætta á þingi og Cheney tapaði í forvali flokksins í Wyoming fyrir nýyfirstaðnar þingkosningar.
Sjá einnig: Gagnrýnir landsnefndina fyrir að beita sér gegn andstæðingum Trumps
Áhugsamir munu geta fylgst með nefndarfundinum í spilaranum hér að neðan. Útsendingin hefst klukkan sex að íslenskum tíma.
Skýrsla og skattskýrslur
Nefndin mun svo á miðvikudaginn birta skýrslu um rannsókn hennar og vitnaleiðslur.
Washington Post segir að meðlimir nefndarinnar hafi deilt við skrif skýrslunnar. Þau Liz Cheney og Stephanie Murphy hafi til að mynda rifist um það hve mikla áherslu ætti að leggja á Trump. Cheney er sögð hafa vilja leggja alla áherslu á forsetann fyrrverandi.
Á þriðjudaginn mun önnur þingnefnd fulltrúadeildarinnar funda um Trump. Þar verður rætt hvað gera eigi við sex ára skattaskýrslur Trumps sem nefndin fékk nýverið í hendurnar eftir fjögurra ára baráttu í dómstólum. Í frétt New York Times segir að mögulegt sé að nefndin ákveði að opinbera gögnin en það yrði þá líklegast gert í skömmu fyrir nýtt þingtímabil, því Repúblikanar munu þá taka völdin í fulltrúadeildinni.
Repúblikanar stóðu sig mun verr en búist var við í kosningunum og hafa margir meðlimir flokksins kennt Trump um það.
Mörgum spjótum beint að Trump
Trump lýsti því nýverið yfir að hann ætlaði að bjóða sig fram til forseta á nýjan leik og vonast til þess að ná kjöri árið 2024. Hann stendur frammi fyrir fjölmörgum dómsmálum um þessar mundir.
Má þar nefna rannsókn á vörslu Trumps á háleynilegum gögnum í eigu ríkisins á heimili hans og sveitarklúbbi í Flórída.
Sjá einnig: Dómarar veita Trump enn eitt höggið
Merric Garland, dómsmálaráðherra, skipaði nýverið sérstakan rannsakanda til að halda utan um rannsóknir ráðuneytisins á Trump vegna árásarinnar á þinghúsið og tilrauna hans til að snúa niðurstöðum forsetakosninganna 2020.
Saksóknarar í Georgíu hafa hann einnig til rannsóknar vegna afskipta hans af framkvæmd kosninganna þar.
Þessar rannsóknir sem nefndar eru hér að ofan eru glæparannsóknir en Trump stendur einnig fram fyrir margvíslegum öðrum rannsóknum og dómsmálum. Hann hefur meðal annars verið sakaður um fjársvik í New York og kærður fyrir nauðgun.