Innlent

Ógnaði ná­granna með skóflu eftir deilur um rutt bíla­stæði

Atli Ísleifsson skrifar
Útkallið í Hafnarfirði kom skömmu fyrir klukkan 18 í gær. Myndin er úr safni.
Útkallið í Hafnarfirði kom skömmu fyrir klukkan 18 í gær. Myndin er úr safni. Getty

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út vegna deilna nágranna um bílastæði sem búið var að ryðja við heimili þeirra í hverfinu 221 í Hafnarfirði í gær.

Sagt er frá málinu í dagbók lögreglu. Þar kemur fram að hjón hafi verið búin að moka snjó úr tveimur bílastæðum við fjölbýlishús í hverfi 221 í Hafnarfirði fyrir einkabíla sína.

Þau hafi svo þurft að nota annan bílinn en þegar þau komu aftur hafi nágranni þeirra verið búinn að leggja sínum bíl í stæðið. Kröfðust hjónin þá að bíllinn yrði færður en nágranninn var þó ekki á því.

„Snjó hafi þá verið mokað að bifreiðinni þannig að ekki var hægt að komast inn í bifreiðina en nágranninn þá ógnað hjónunum með skóflu,“ segir í dagbók lögreglu, en tilkynning um málið barst skömmu fyrir klukkan 18 í gær.

Ók á ljósastaur

Um klukkan 20:30 í gærkvöldi var tilkynnt um umferðaróhapp í miðborg Reykjavíkur þar sem bíl hafði verið ekið á ljósastaur. Ökumaðurinn var þar búinn að festa bílinn og komst ekki í burtu. Hann var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis, fíkniefna og lyfja og færður í fangageymslu lögreglu.

Þá segir frá því að skömmu fyrir klukkan 23 hafi verið tilkynnt um tjón á bensínstöð í Kópavogi þar sem bíl hafði verið bakkað á bensíndælu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×