Innlent

Kastaði af sér þvagi á miðri ak­braut

Árni Sæberg skrifar
Lögreglan sinnti ýmsum málum í gærkvöldi og í nótt.
Lögreglan sinnti ýmsum málum í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Nokkur erill var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Eitt af verkefnum næturinnar var að hafa afskipti af manni sem stóð á miðri akbraut í miðbæ Reykjavíkur og kastaði af sér þvagi.

Maðurinn var kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt, að því er segir í dagbókarfærslu lögreglunnar.

Samkvæmt dagbókinni voru rúmlega áttatíu mál skráð í gærkvöldi og nótt, aðallega tengd færð og ölvun. Lögregluþjónar aðstoðuðu fólk sem hafði fest bíla sína, dottið í hálku og ók köldum og ölvuðu fólki heim.

Líkamsárás á veitingahúsi

Upp úr klukkan þrjú í nótt var maður handtekinn á veitingahúsi í Hafnarfirði vegna gruns um að hann hefði framið líkamsárás. Sá var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Ölvaður maður var handtekinn á veitingahúsi í Kópavogi laust fyrir klukkan tíu í gærkvöldi. Sá fór ekki eftir fyrirmælum lögreglu og sparkaði í lögreglubifreið. Hann var látinn sofa úr sér í fangageymslu.

Þá var maður handtekinn í Breiðholti á tólfta tímanum vegna gruns og vopnalagabrot og fleira. Hann var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×