Innlent

Lækka há­marks­hraða um gjör­valla Reykja­víkur­borg

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Breytingarnar eru sagðar nauðsynlegar til að efla umferðaröryggi og koma í veg fyrir alvarleg slys.
Breytingarnar eru sagðar nauðsynlegar til að efla umferðaröryggi og koma í veg fyrir alvarleg slys. Vísir/Vilhelm

Hámarkshraði verður lækkaður um alla Reykjavíkurborg á næsta ári. Götur, þar sem hámarkshraði var áður 50 kílómetra hraði á klukkustund, fer ýmist niður í 30 eða 40 kílómetra hraða. Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti breytingarnar í morgun.

Búist er við því að breytingarnar taki nokkurn tíma, eða stóran hluta ársins 2023. Lækkun hámarkshraða tekur gildi þegar ný skilti eru komin upp. Áréttað er að breytingarnar taka ekki til gatna sem eru í umsjón Vegagerðarinnar og Faxaflóahafna.

Vegagerðin fer meðal annars með vegahald þjóðvega í þéttbýli. Lækkun hámarkshraða mun því ekki hafa áhrif á Sæbraut, Kringlumýrarbraut, Miklubraut, Hringbraut, Vesturlandsveg og Reykjanesbraut.

Hér að neðan er mynd sem sýnir breytingarnar.

Reykjavíkurborg ræðst í breytingarnar á næsta ári.Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg segir markmiðið með lækkuninni vera að stuðla að bættu umferðaröryggi og koma í veg fyrir alvarleg slys á fólki. Lækkun hámarkshraða sé nauðsynleg til að ná því markmiði.

Taldir eru upp fjölmargir vegir innan íbúðabyggðar þar sem hámarkshraði fer úr 50 kílómetra hraða niður í 30 eða 40 kílómetra hraða á klukkustund á vef Reykjavíkurborgar. Hámarkshraði á Bústaðarvegi og Grensásvegi lækkar meðal annars niður í 40 kílómetra hraða og hámarkshraði á Flugvallarvegi, austan Bústaðarvegar, fer niður í 30 kílómetra hraða á klukkustund.

Hægt er að skoða ítarlegan gatnalista Reykjavíkurborgar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×