Innlent

Brutust inn í geymslu og stálu gömlum dúkku­vagni og fleiru

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla stöðvaði í nótt ökumann sem ók á 162 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er áttatíu.
Lögregla stöðvaði í nótt ökumann sem ók á 162 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er áttatíu. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út um klukkan 18 í gær þegar tilkynnt var um innbrot í geymslu í fjölbýlishúsi í hverfi 109 í Reykjavík. Þar var meðal annars búið að stela gömlum dúkkuvagni og fleiri verðmætum.

Í tilkynningu frá lögreglu, þar sem segir frá verkefnum lögreglu i gærkvöldi og í nótt, segir nokkru síðar hafi verið tilkynnt um þjófnað úr verslun í sama hverfi. Þar voru tveir ofurölvi menn handteknir á vettvangi grunaðir um þjófnað á matvöru. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu lögreglu vegna ástands síns.

Um klukkan 22 stöðvaði lögregla bíl í hverfi 104 í Reykjavík þar sem karl og kona voru handtekin grunuð um framleiðslu á áfengi. Hald var lagt á áfengið og voru þau látin laus að lokinni skýrslutöku.

Á 162 kílómetra hraða

Þá segir að um hálf þrjú í nótt hafi lögregla stöðvað bíl sem mældur var á 162 kílómetra hraða á Reykjanesbraut í Kópavogi, á kafla þar sem hámarkshraðinn er áttatíu. Ökumaðurinn var færður á lögreglustöð þar sem hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.

Loks segir frá því að á fimmta tímanum í nótt hafi leigubílstjóri óskað eftir aðstoð í Breiðholti vegna farþega sem gátu ekki greitt fyrir farið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×