Viðskipti innlent

Í fyrsta sinn sem hlutfall tengifarþega er hærra hjá Play

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Play flutti 75 þúsund farþega í nóvember.
Play flutti 75 þúsund farþega í nóvember. Vísir/Vilhelm

Stjórnendur Icelandair og Play hafa birt farþegatölur síðasta mánaðar og er niðurstaðan sú að í fyrsta sinn er hlutfall tengifarþega hærra hjá því síðarnefnda.

Þetta kemur fram á vef Túrista. Play flutti 75 þúsund farþega í nóvember og að jafnaði voru 8 af hverjum 10 sætum skipuð farþegum.

Hingað til hafa stjórnendur Play ekki gefið upp í mánaðarlegum flutningatölum hvernig farþegahópurinn skiptist eftir Íslendingum, erlendum ferðamönnum og tengifarþegum. Flugfélagið birti hins vegar þessar tölur fyrir nýliðinn nóvember.

Þar kemur fram að hlutfall tengifarþega hafi verið 39 prósent og er þetta í fyrsta sinn sem hlutfall tengifarþega er hærra hjá Play en Icelandair.

„Tengifarþegar skipta okkur hins vegar miklu máli á veturna en eins og við sögðum á dögunum viljum við sjá meiri farþega til landsins fyrir vor og sumar 2023. Svo skiptir það mjög miklu máli fyrir okkur núna að hafa svo góða sætanýtingu þegar hliðartekjurnar eru að aukast en það var annað sem við bentum á að hafi skort á þriðja ársfjórðungi,“ segir Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play, í svari til Túrista.

Þá kemur fram í tilkynningu Play segir að 98 prósent ferða félagsins í nóvember hafi verið á réttum tíma og því heldur flugfélagi áfram að vera stundvísari en Icelandair.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×