Fótbolti

Neymar jafnaði opinbert markamet Pelé

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Neymar fagnaði vel og innilega þegar hann kom Brasilíu yfir gegn Króötum.
Neymar fagnaði vel og innilega þegar hann kom Brasilíu yfir gegn Króötum. Youssef Loulidi/Fantasista/Getty Images

Neymar jafnaði í dag opinbert markamet goðsagnarinnar Pelé fyrir brasilíska landsliðið í knattspyrnu. Neymar skoraði mark Brasilíu er liðið féll úr leik á heimsmeistaramótinu gegn Króatíu eftir vítaspyrnukeppni.

Neymar kom brasilíska liðinu í forystu í uppbótartíma fyrri hálfleiks framlengingar í leik Brasilíu og Króatíu í dag. Markið dugði þó skammt því Króatar jöfnuðu metin snemma í síðari hálfleik og höfðu svo betur í vítaspyrnukeppni, 4-3. 

Mark Neymars var hans 77. fyrir brasilíska landsliðið. Hann er því orðinn markahæsti leikmaður liðsins frá upphafi, ásamt goðsögninni Pelé sem skoraði einnig 77 mörk á sínum landsliðsferli.

Pelé sjálfur, sem og brasilíska knattspyrnusambandið, vilja þó meina að Neymar eigi enn nokkuð í land til að jafna markametið. Samkvæmt þeim skoraði Pelé 95 mörk fyrir landsliðið á sínum tíma. Nokkur þeirra voru vissulega skoruð fyrir brasilíska landsliðið, en í vináttuleikjum gegn félagsliðum. 

Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA viðurkennir þó aðeins landsliðsmörk sem skoruð eru í leikjum milli tveggja þjóða og því er Neymar búinn að jafna opinbert markamet goðsagnarinnar. 

Neymar hefur þó þurft töluvert fleiri leiki til að skora mörkin 77, en hann hefur leikið 124 leiki fyrir brasilíska landsliðið á meðan Pelé lék 92 á sínum tíma. Báðir eiga þeir þó langt í land til að ná markahæsta leikmanni Brasilíu frá upphafi, en Marta hefur skorað 115 mörk fyrir kvennaliðið í 171 leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×