Fótbolti

Spænska stjarnan flutt á sjúkra­hús eftir slys á æfingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alvaro Morata fagnar hér marki sínu fyrir AC Milan á móti Real Madrid en leikurinn fór fram á hans gamla heimavelli Santiago Bernabeu.
Alvaro Morata fagnar hér marki sínu fyrir AC Milan á móti Real Madrid en leikurinn fór fram á hans gamla heimavelli Santiago Bernabeu. Getty/Alberto Gardin

Spænski knattspyrnumaðurinn Alvaro Morata endaði æfingu á sjúkrahúsi í gær eftir slæmt samstuð við liðsfélaga.

Morata byrjaði vikuna á því að hjálpa AC Milan að vinna hans gömlu félaga í Real Madrid. Hann skoraði eitt markanna í 3-1 sigri.

Það var ekki eins gott hljóðið í þessum 32 ára framherja á fyrstu æfingu AC Milan leikmanna eftir leikinn í Madrid.

Morata og miðvörðurinn Strahinja Pavlovic skullu nefnilega illa saman á þessari æfingu. Morata fékk við það slæmt höfuðhögg. Spænska blaðið Mundo Deportivo sagði að meiðslin hafi talin vera það alvarleg að Morata var fluttur strax á sjúkrahús.

Eftir ítarlega skoðun þá töldu læknar að niðurstöðurnar væru jákvæðar og að Morata hafi sloppið við alvarleg meiðsli. Hann verður samt áfram undir ströngu eftirliti.

Það er hins vegar ljóst að Morata missir af næsta leik AC Milan sem er á móti Cagliari á morgun. Hann gæti einnig misst af landsleikjum Spánar en landsliðsverkefni taka við eftir helgi.

Morata er með þrjú mörk og tvær stoðsendingar fyrir AC Milan síðan hann kom til liðsins í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×