Musk missti titilinn tímabundið vegna mikillar virðisminnkunar á hlut hans í rafbílaframleiðandanum Tesla og afleiðinga fjárfestingar sinnar í samfélagsmiðlinum Twitter. Hann hafði trónað á toppnum sem ríkasti maður heims síðan í september 2021 þegar hann tók fram úr stofnanda Amazon, Jeff Bezos. Þessu greinir Reuters frá.
Verðmæti verðbréfa Tesla hefur hrapað um meira en 47 prósent síðan að Musk bauð í Twitter en Musk er forstjóri bílaframleiðandans. Það mætti því segja að kaup Musk hafi haft gríðarleg áhrif á auðæfi hans en þau hafa minnkað um nærri 70 milljarða Bandaríkjadala síðan tilboðið í samfélagsmiðilinn varð ljóst.
Einnig féllu auðæfi Musk undir 200 milljarða Bandaríkjadala nú snemma í nóvember þegar stærstu fjárfestar Tesla höfðu áhyggjur af því að auðkýfingurinn sýndi Twitter of mikla athygli.
Fylgjast má með breytingum á lista yfir ríkustu auðkýfinga heims með því að smella hér. Þess má geta að Jeff Bezos, sem Musk tók fram úr í fyrra, er núna í fjórða sæti.