Fótbolti

Liðsfélagi Alberts dæmdur í sex ára fangelsi fyrir hópnauðgun

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Manolo Portanova er á leið í sex ára fangelsi.
Manolo Portanova er á leið í sex ára fangelsi. Gabriele Maricchiolo/NurPhoto via Getty Images

Ítalski knattspyrnumaðurinn Manolo Portanova, leikmaður ítalska B-deildarliðsins Genoa, hefur verið dæmdur í sex ára fangelsi vegna þátttöku sinnar í hópnauðgun. Brotið átti sér stað í maí á síðasta ári.

Það er ítalski íþróttamiðillinn La Gazzetta Dello Sport sem greinir frá þessu, en Portanova er 22 ára liðsfélagi Alberts Guðmundssonar hjá Genoa.

Ásamt Portanova voru þeir Alessio Langella, frændi leikmannsins, og Alessandro Cappiellp, vinur þeirra, einnig dæmdir í sex ára fangelsi. Þremenningunum er einnig gert að greiða fórnarlambinu og fjölskyldu hennar 120 þúsund evrur hver í skaðabætur, en það samsvarar um 18 milljónum króna.

Portanova, Langella og Cappiello voru allir fundnir sekir um að nauðga í sameiningu 21 árs gamalli konu í íbúð hennar í Siena í lok maí á síðasta ári. Þá var ónefndur 17 ára drengur einnig sóttur til saka fyrir sinn þátt í málinu, en hann fer fyrir ungmennadómstól í Flórens.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×