Sport

„Ef þú ert lofthræddur hættu þá bara strax keppni“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Burj Khalifa byggingin í Dubaí er sú hæsta í heimi.
Burj Khalifa byggingin í Dubaí er sú hæsta í heimi. Getty/ Jakub Porzycki

Það var boðið upp á mjög sérstaka fyrstu grein á Dubai Fitness Championship CrossFit mótinu sem hófst í dag.

Dubai Fitness Championship er eitt af stóru CrossFit mótunum á tímabilinu enda vanalega veglegt verðlaunafé í boði.

Ísland á ekki keppenda á mótinu að þessu sinni en kannski væru einhver af okkar besta CrossFit fólki spennt fyrir nýstárlegri grein sem er boðið upp á þetta árið.

Í fyrra þurftu keppendur meðal annars að hlaupa í snjó í miðri eyðimörkinni en að þessu sinni þurfa þeir að glíma við hæsta hús í heimi.

Fyrsta greinin á mótinu í ár fór fram í hinni heimsfrægu Burj Khalifa byggingu sem er hæsta bygging heims og kennileiti Dúbaí borgarinnar.

Skýjakljúfurinn var opnaður árið 2010 en hann er 829 metrar á hæð.

Í fyrstu greininni á Dubai Fitness mótinu þá áttu keppendur að hlaupa upp 2909 tröppur með þyngingarvesti. Það var búist við því að það taki þá bestu um fjörutíu mínútur að komast alla leið upp en bestu karlarnir kláruðu á hálftíma og bestu konurnar á 32 mínútum.

Keppendur byrjuðu  á jörðu niðri og hlupu alla leið upp á 160. hæð byggingarinnar. Þetta voru engin tímahámörk í gangi en til þess að fá að halda áfram keppni þá þarftu að klára alla 2909 tröppurnar.

„Ef þú ert lofthræddur hættu þá bara strax keppni. Ég er að segja þetta í fullri alvöru. Ekki reyna þetta,“ sagði Saud Al-Shamsi, viðburðarstjóri Dubai Fitness Championship, í samtali við Morning Chalk Up vefinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×