Innlent

Vill ekki að kirkju­heim­sóknir leggist af

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Diljá Mist Einarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins.
Diljá Mist Einarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins. Stöð 2

Þingkona Sjálfstæðisflokksins segir kirkjuna ekki senda góð skilaboð nú í aðdraganda jólanna, en sumir söfnuðir á höfuðborgarsvæðinu hafa skrúfað fyrir heimsóknir barna á skólatíma þessa aðventuna. 

Það vakti talsverða athygli þegar Laugarneskirkja sendi frá sér yfirlýsingu í haust þess efnis, að kirkjan myndi ekki bjóða uppá skólaheimsóknir á aðventunni. Þess í stað verða opnir viðburðir nú í aðdraganda jólanna.

Í samskiptareglum Reykjavíkurborgar frá 2013 segir að heimsóknir á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga eigi að eiga sér stað undir handleiðslu kennara sem liður í fræðslu um trú og lífsskoðanir. 

Diljá Mist Einarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, vill ekki að þessar heimsóknir leggist af.

„Já, jólin og aðventan eru auðvitað svona órjúfanlegur hluti af íslenskri menningu og íslenskri sögu. Ég á nú börn á grunnskólaaldri sem eru í óða önn að undirbúa jólin, á skólatíma, og það er auðvitað leiðinlegt að sjá að þessar heimsóknir séu á undanhaldi ef það er rétt. Ég á bara góðar minningar af þessum stundum frá því að ég var í skóla og ég held það séu ekki börnin sem eru að kvarta yfir því að fá frí í skólanum og fara í piparkökur og jólalög í kirkjunum.“

Laugarneskirkja.Vísir/Sigurjón

En hvers vegna eru þessar heimsóknir á undanhaldi?

„Ég skil alveg hvaðan þau koma, þau gera þetta í nafni umburðarlyndis og til þess að svona forðast einhver átök. Ég er bara ósammála því að þessi fallega hefð, áratugalanga hefð sé að valda einhverjum deilum í samfélaginu okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×