Innlent

Ákærður fyrir að brjóta kynferðislega á konu með andlega fötlun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Málið er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málið er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Héraðssaksóknari hefur ákært karlmann fyrir kynferðisbrot með því að hafa ítrekað haft samræði eða önnur kynferðismök við konu sem glímdi við andlega fötlun. Talið er að konan hafi hvorki getað spornað við verknaðnum vegna andlegrar fötlunar og né skilið þýðingu hans.

Brot karlmannsins eru talin hafa ítrekað átt sér stað yfir rúmlega tveggja ára tímabil, frá nóvember 2019 til desember 2021. Réttargæslumaður gerir kröfu um þrjár milljónir króna í miskabætur fyrir brotaþola í málinu.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í febrúar en fyrirtaka í málinu fór fram í dag. Lágmarksrefsing fyrir brot á 2. málsgrein 194. greinar almennra hegningarlaga er eins árs fangelsi.

Karlmaðurinn er sömuleiðis ákærður fyrir fíkniefnabrot fyrir að hafa haft í fórum sínum ellefu e-töflur og eitt gramm af maríjúana þegar lögregla hafði afskipti af honum í apríl 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×