Maðurinn sem lést var á sextugsaldri en hann var undir áhrifum fíkniefna þegar lögreglumaðurinn sem var dæmdur og annar lögreglumaður handtóku hann í nóvember í fyrra en lögreglu hafði verið tilkynnt að hann væri í einhvers konar geðrofi.
Að því er kemur fram í frétt SVT lést maðurinn eftir að honum hafði haldið niðri á stigapalli með miklum krafti. Við krufningu kom fram að maðurinn hafði farið í hjartastopp eftir köfnun en lögreglumaðurinn þrýsti á bak mannsins meðan hann lá á maganum.
Atvikið í heild sinni náðist á upptöku af myndavél í sorphirðubíl sem var í nágreninu en upptakan var lögð fram við meðferð málsins og spilaði að mati dómsins lykilhlutverk í að ákæra var lögð fram og lögreglumaðurinn síðan sakfelldur.
Héraðsdómur Stokkhólms segir ljóst að lögreglumaðurinn hafi orðið manninum að bana og að ekki hafi verið neyðarviðbrögð af hans hálfu. Hann hafi átt að átta sig á því að maðurinn gæti látist af völdum aðgerða hans.
Lögreglumaðurinn hlaut skilorðsbundinn dóm og honum gert að greiða dagsektir en nefnd á vegum lögreglunnar hafði áður ákveðið að lögreglumaðurinn myndi halda starfi sínu, óháð því hver dómurinn yrði.
Þetta er í fyrsta sinn í sögu Svíþjóðar sem lögreglumaður hefur verið ákærður fyrir manndráp við handtöku og sömuleiðis fyrsta sinn sem dómur hefur fallið í slíku máli.