Innlent

Stuðningur kjósenda Samfylkingar við aðild að ESB úr 84 prósentum í 67 prósent

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Formaður Samfylkingarinnar segir að mögulega sé stuðningsmönnum flokksins að fjölga sem setja varnagla við aðild.
Formaður Samfylkingarinnar segir að mögulega sé stuðningsmönnum flokksins að fjölga sem setja varnagla við aðild. Vísir/Vilhelm

42,8 prósent þjóðarinnar eru hlynnt aðild að Evrópusambandinu en 35,1 prósent andvíg. Óákveðnum hefur fjölgað úr 17,7 prósent í 22,1 prósent, ef marka má nýja könnun Prósents. Dregið hefur úr stuðningi við aðild meðal kjósenda Samfylkingarinnar.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

Þar segir að nú séu 67 prósent kjósenda Samfylkingarinnar fylgjandi aðild en 12 prósent á móti. Í síðustu könnun, sem gerð var í júní, sögðust 84 prósent fylgjandi aðild og aðeins 5 prósent andvíg.

„Það getur verið að fólk sem tengir sig við jafnaðarstefnuna í grunninn en hefur varnagla gagnvart Evrópusambandinu sé að koma aftur til Samfylkingarinnar og vilji styðja hana núna,“ hefur Fréttablaðið eftir Kristrúnu Frostadóttur, nýkjörnum formanni Samfylkingarinnar.

Meirihluti kjósenda fjögurra flokka styður aðild; Pírata, Viðreisnar, Sósíalista og og Vinstri grænna. Stuðningurinn mælist 74 prósent hjá Pírötum og 68 prósent meðal kjósenda Viðreisnar.

Stuðningurinn er heldur minni meðal kjósenda annara flokka; 26 prósent hjá kjósendum Flokks fólksins, 24 prósent meðal Framsóknarmanna, 19 prósent meðal Sjálfstæðismanna og 11 prósent meðal kjósenda Miðflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×