Erlent

Skotar þurfa leyfi fyrir nýrri atkvæðagreiðslu

Samúel Karl Ólason skrifar
Skoskur sjálfstæðissinni fyrir utan húsnæði Hæstarétts Bretlands í morgun.
Skoskur sjálfstæðissinni fyrir utan húsnæði Hæstarétts Bretlands í morgun. AP/Aaron Chown

Skoska heimastjórnin má ekki halda nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði, án leyfis frá breska þinginu. Hæstiréttur Bretlands opinberaði þessa niðurstöðu í morgun en Nicola Sturgeon, oddviti heimastjórnarinnar, stefndi á atkvæðagreiðslu í október á næsta ári.

Dómarar hæstaréttar voru sammála um það að skoska þingið hefði ekki vald til að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands og að það vald væri eingöngu í höndum breska þingsins.

Sturgeon og Skoski þjóðflokkurinn (SNP) kynntu í sumar áætlun um að halda nýja þjóðaratkvæðagreiðslu þann 19. október á næsta ári. Síðast var þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði haldin árið 2014 og þú kusu rétt rúmlega 55 prósent kjósenda að Skotland ætti áfram að vera hluti af Bretlandi.

Sjá einnig: Stefna á aðra þjóðar­at­kvæða­greiðslu um sjálf­stæði Skot­lands

Brexit, útganga Bretlands úr Evrópusambandinu, breytti stöðunni þó mjög. Mikill meirihluti skosku þjóðarinnar greiddi atkvæði gegn Brexit og strax árið 2017 byrjaði Sturgeon að sækjast eftir því að halda nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði.

Fyrstu viðbrögð oddvitans við ákvörðun hæstaréttar voru á þá leið að hún ætli að virða niðurstöðuna. Sturgeon sagði að hæstiréttur Bretlands túlkaði lög ríkisins. Hún sagði einnig að lög um að Skotar geti ekki ákveðið eigin framtíð án samþykkis breska þingsins opinberi það að breska sambandsríkið sem einhvers konar frjálst samstarf, sé einungis mýta.

Niðurstaðan ýti frekar undir það að Skotar ættu að sækjast eftir sjálfstæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×