Skoðun

Rangfærslur Ísteka

Rósa Líf Darradóttir skrifar

Í Reykjavík síðdegis þann 17.11.2022 var tekið viðtal við Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóra Ísteka, um blóðmerahald fyrirtækisins. Samtök um dýravelferð á Íslandi (SDÍ) vilja koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum við málflutning framkvæmdastjórans.

Viðbrögð Ísteka 

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir blaðamanna og almennings létu forsvarsmenn Ísteka ekki ná í sig eftir útgáfu myndarinnar “Iceland - Land of 5.000 Blood Mares”. Eftir nokkurra vikna þögn birtust færslur frá framkvæmdastjóra fullar fögrum fyrirheitum um úrbætur á starfseminni. Fullyrt var að tekið yrði upp myndavélaeftirlit með blóðtökum en af því hefur ekki orðið. Framkvæmdastjóri Ísteka, Arnþór fjallaði einnig um eiginleika frjósemislyfsins PMSG. Hann hélt því fram að hormónið væri notað í verndarstarfi dýra í útrýmingarhættu og hefði jákvæð áhrif á loftslagið. Þessum fullyrðingum fylgdu engin haldbær rök. Eftir okkar bestu vitneskju eru þeir dýralæknar sem í myndinni sjást ennþá starfandi hjá Ísteka. Þeirra hlutverk hefði átt að vera að stoppa það dýraníð sem þar kom fram. Arnþór talar um atriði í myndinni sem „líta út eins og ofbeldi“ og að það hafi einungis verið „stutt atriði“. Ofbeldi gagnvart dýrum á aldrei að líða, hvort sem það varir lengi eða stutt. 

Blóðvökvaskipti í Meura á tömdum hryssum

Arnþór nefnir að blóðtökur séu einnig stundaðar í Meura í Þýskalandi en minnist ekki á að þar er blóðtaka stunduð með blóðvökvaskiptum eða „plasmapheresis“. Töluverður munur er á því líkamlega álagi sem hross verða fyrir við blóðtöku eða við blóðvökvaskipti. Með slíkri aðferð er þess gætt að hrossið tapi ekki blóðþrýstingi, með því að gefa því vökva í æð. Auk þess eru rauðum blóðkornum, hvítum blóðkornum og blóðflögum skilað aftur í saltlausn inn í æðakerfi hrossa samtímis. Með þessu móti er áhrifum á líkamlega heilsu hryssanna haldið í lágmarki. Að auki er hryssurnar tamdar í Meura sem minnkar andlegt álag til muna. Dýralæknafélag Íslands og Dýraverndunarfélög hafa krafist þess að hryssurnar fái lágmarks tamningu til þess að draga úr skelfingu þeirra við blóðtökuna. Ekki var tekið mið af þessum kröfum í nýlegri reglugerð ráðherra. Fulltrúi SDÍ ræddi Charlottu Oddsdóttur, dýralækni á Keldum sem sér um óháðar rannsóknir á heilsu blóðtökuhryssa fyrir Matvælaráðuneytið. Aðspurð um skráningu á lífsmörkum á hryssunum eftir blóðtökurnar til þess að athuga hvort þær sýni einkenni sem gætu samrýmst blóðþurrðarlosti, fengust þau svör að í flestum tilvikum væri það ógerlegt þar sem ekki er möguleiki að nálgast hryssurnar. Allt tal um að hryssum verði “ekki meint” af blóðtöku er þar með fjarstæðukennt ef ekki er fylgst með líðan þeirra eftir blóðtöku.

Myndavélaeftirlit skortir

Arnþór segir starfsemina „undir radar sem hefur komið þeim núna illa í koll“. Það er vel þekkt að utanaðkomandi aðilum er ekki velkomið að fylgjast með blóðtöku. Arnþór hefur hafnað beiðni fulltrúa SDÍ um viðveru á blóðtökustað. Fagráð um velferð dýra hefur lagt til að myndavélaeftirlit skuli hafa með blóðtökum og fyrirtækið Ísteka stefndi að því að koma upp slíku eftirliti eftir að myndin kom út. Ekkert hefur orðið úr þessum áætlunum og þegar fulltrúar SDÍ spurðust fyrir um eftirlit þetta tjáði Arnþór þeim að bændur tóku ekki slíkt eftirlit í mál. Spurður um myndavélaeftirlit hjá þeim hryssum sem eru í eigu Ísteka var fátt um svör. Þar af leiðandi má draga þá ályktun að það sé ásetningur Ísteka að hafa starfsemina að mestu „undir radar“.

Yfirgengileg blóðtaka 

Spyrill spyr hvort hægt væri að fara öðruvísi að við blóðtöku. Arnþór vék sér undan þeirra spurningu en auðvitað gæti Ísteka minnkað það mikla blóðmagnið sem tekið er hverju sinni. Fyrirtækið ætti að fara eftir alþjóðlegum leiðbeiningum um blóðtökur dýra. Fulltrúi SDÍ hafði samband við erlent fyrirtæki sem framleiðir lífsbjargandi lyf úr hrossablóði. Þar er tekið blóð úr helmingi stærri geldingum og þeir tamdir. Blóðtaka er framkvæmd tvisvar á ári og nánast helmingi minna blóðmagn en viðgengst hérlendis.

PMSG er ekki nauðsynlegt

Arnþór heldur því fram að PMSG sé nauðsynlegt lyf. Íslenskir bændur nota ekki PMSG og svissneskir bændur hafa ákveðið að nota það ekki lengur í kjölfar umfjöllunar á blóðmerahaldi á Íslandi. Notkun PMSG er vinsæl í verksmiðjubúskap. Frjósemislyf þetta eykur álag á önnur húsdýr umfram náttúrulegu frjósemi þeirra og þar með eykur þjáningu þeirra. Rót frjósemisvandamála sem þessi dýr glíma við eru m.a. tilkomin vegna þeirra ömurlegu aðstæðna sem maðurinn býður þeim. Það er fráleitt að halda því fram að slíkt lyf sé nauðsynlegt.

Blóðtökuhryssur þjást 

Arnþór segir blóðtökuhryssur heilbrigðar og blóðtakan hafi engin neikvæð áhrif á heilsu þeirra. Engin gögn eða rannsóknir styðja þá fullyrðingu. Þau takmörkuðu gögn sem til eru sýna að margar hryssur liggja langt undir heilsusamlegum mörkum í blóðrauða og eru því að þjást vegna blóðleysis. Staðreyndir málsins sýna hversu hart fram og nærri hryssunum er gengið með takmarkalausa græðgi í fyrirrúmi.

Virðingafyllst, Stjórn Samtaka um dýravelferð á Íslandi.

Höfundur er varaformaður Samtaka um dýravelferð á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×