Í kjölfar undanhaldsins frá Kherson sagði Varnarmálaráðuneyti Rússlands að um þrjátíu þúsund hermenn hefðu verið fluttir af vesturbakkanum. Þar á meðal eiga að hafa verið bestu og reyndustu hersveitir Rússa, sem höfðu verið fluttar til héraðsins í sumar.
Reuters segir að hluti af þessum þrjátíu þúsund hermönnum hafi verið fluttir til austurhluta Úkraínu þar sem harðir bardagar eru sagðir geysa víða. Fregnir hafa þó ekki borist af því að Rússum hafi tekist að sækja fram gegn Úkraínumönnum í austri, svo máli skiptir.
Lítið er vitað um raunverulegt ástand þessara hersveita en þær munu hafa verið á víglínum í Kherson án hvíldar í marga mánuði.
Rússar hafa lagt mikið púður í að ná Donbas svæðinu svokallaða í austurhluta Úkraínu. Þeir hafa þó lítið sem ekkert sótt fram um mánaðaskeið.
Úkraínumenn segja að stórskotaliðsárásum Rússa hafi fjölgað mjög í austurhluta landsins. Minnst fjögur hundruð árásir hefðu verið gerðar á svæðinu í gær og hart væri barist.
Sjá einnig: Selenskí segir Rússa hafa gert 400 árásir í austurhluta landsins í gær
Vilja árangur
Fréttaveitan segir að heima fyrir sé þrýst á Surovikin og sá þrýstingur snúi bæði að því að rússneski herinn eigi að ná árangri í austurhluta Úkraínu og að halda áfram eldflaugaárásum á innviði Úkraínu og jafnvel auka umfang þeirra árása.
Þessi þrýstingur er sagður koma frá ráðamönnum í Moskvu, fjölmiðlafólki og rússneskum herbloggurum, sem eru margir tiltölulega vinsælir.
Þegar Surovikin var settur yfir innrásina alla þann 8. október var það fyrsta sinn sem slíkt var gert. Innrásin hafði ekki haft einn yfirmann þar til þá en kenningar voru uppi um að Vladimír Pútín, forseti, hefði ekki viljað gefa neinum herforingja svo mikil völd.
Reuters hefur eftir sérfræðingum að Surovikin hafi haft áhrif á rússneska herinn og að agi virðist hafa aukist meðal rússneskra hermanna.