FTX var ein af stærstu rafmyntarkauphöllum heims en fyrirtækið hrundi eins og spilaborg þegar viðskiptavinir gerðu nokkurs konar áhlaup og vildu skipta rafmyntum sínum út fyrir „hefðbundna“ mynt. Lausafjárþurrðin leiddi til þess að FTX var á endanum tekið til gjaldþrotameðferðar í þarsíðustu viku.
Í gögnum sem birt hafa verið í tengslum við gjaldþrotameðferðina kemur fram að FTX skuldi fimmtíu stærstu lánadrottnum sínum þrjá milljarða dollara. Sé hringurinn þrengdur niður í tíu stærstu lánadrottna fyrirtækisins nemur upphæðin 1,45 milljörðum dollara, um 200 milljörðum króna.
Greint hefur verið frá því að allt að milljón kröfuhafar gætu verið í þrotabú FTX þegar það verður tekið til gjaldþrotaskipta. Bandarísk yfirvöld rannsaka hvort að fyrirtækið hafi brotið þarlend lög um verðbréf.
Ekkert þeirra íslensku fyrirtækja sem bjóða upp á fjárfestingar í rafmyntum samkvæmt heimild og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins voru í viðskiptum við rafmyntakauphöllina FTX. Fyrir helgi óskaði FTX eftir gjaldþrotaskiptum fyrir dómstóli í Bandaríkjunum, að því er kom fram í frétt Innherja á dögunum.