Flestum dettur í hug Spánn þegar þeir heyra minnst á nautaat. Nokkrum kannski Portúgal, en afar fáir tengja þessa skemmtan, ef hægt er að nota það orð nútildags yfir þennan hildarleik manns og nauts, við Frakkland.
Nautaat er stundað í syðri héruðum Frakklands
Nautaat hefur engu að síður verið stundað í um 10 héruðum í syðsta þriðjungi Frakklands frá 19. öld, en nú reyna þingmenn umhverfis- og dýraverndunarsinna á franska þinginu að banna nautaatið.
Er nautaat bara dýraníð sums staðar?
Fyrsti flutningsmaður tillögunnar, Aymeric Caron, bendir á að i gildi séu ströng lög gegn dýraníði í Frakklandi, þar sem nautaat nýtur undantekningar vegna sögulegrar og menningarlegrar hefðar. Caron segir þetta rökleysu, ef nautaat flokkast sem dýraníð í París, þá hlýtur það líka að vera dýraníð í Suður-Frakklandi. Andstæðingar bannsins benda á að fjöldi starfa myndi tapast verði bannið samþykkt, viðkomandi héruð yrðu fyrir miklu fjárhagslegu tapi, auk þess sem þeir beita óspart fyrir sig rökunum um hina menningarlegu arfleifð sem ekki megi útrýma.
Allt bendir til þess að nautaat verði áfram leyft
Allar líkur eru á því að frumvarpið verði fellt, einungis flokkarnir lengst til vinstri styðja það, stjórnarflokkurinn er andsnúinn því sem og flokkar á hægri væng franskra stjórnmála. Það endurspeglar hins vegar ekki afstöðu almennings í Frakklandi. Samkvæmt könnun sem gerð var fyrr á árinu, styðja 77% þjóðarinnar bann við nautaati. Sé hins vegar litið til svæðanna þar sem nautaat er leyft þá er minnihluti fólks í þeim héruðum fylgjandi banni.
Atkvæðagreiðsla á fimmtudag
Atkvæði um frumvarpið verða greidd í neðri deild franska þingsins á fimmtudag, en samkvæmt hefð er það eini dagur ársins þar sem frumvörp stjórnarandstöðunnar eru tekin til afgreiðslu.