Innlent

Öll þjónusta við útlendinga í eina stofnun

Kjartan Kjartansson skrifar
Hjá Vinnumálastofnun starfa um 190 fastráðnir starfsmenn en tæplega tíu stöðugildi fastráðinna starfsmanna eru hjá Fjölmenningarsetri.
Hjá Vinnumálastofnun starfa um 190 fastráðnir starfsmenn en tæplega tíu stöðugildi fastráðinna starfsmanna eru hjá Fjölmenningarsetri. Vísir/Vilhelm

Félags- og vinnumarkaðsráðherra ætlar að leggja fram frumvarp um að sameina Vinnumálastofnun og Fjölmenningarsetur þannig að öll þjónusta við við innflytjendur, flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd verði á hjá einni stofnun. Hún á að taka til starfa á næsta ári og fá nýtt nafn.

Vinnumálastofnun og Fjölmenningarsetur eru þær stofnanir sem veita þjónustuna en í tilkynningu á vef stjórnarráðsins kemur fram að markmið sameigningar þeirra sé að veita heildræna og samþætta þjónustu fyrir þessa hópa á einum stað.

Þar sé meðal annars horft til árangurs af móttökumiðstöð fyrir flóttafólk en þar hafi öll þjónusta fyrir þau sem eru nýkomin til landsins verið sameinuð á einn stað. Miðstöðin var opnuð í apríl og er staðsett þar sem Domus Medica var áður til húsa.

Ætlunin er að ná fram samlegðaráhrifum milli stofnananna þannig að þessir þrír hópar geti leitað á einn stað vegna umfangsmikillar þjónustu sem ráðuneytið og stofnunum þess er ætlað að veita. Sameiningin á einnig að einfalda samstarf ríkis og sveitarfélaga í málaflokknum og gera þjónustu skilvirkari. Fyrirhugað er að ráðherrann leggi frumvarpið um sameininguna fram á vorþingi. 

Fjölmenningarsetur er er með aðalskrifstofu sína á Ísafirði þar sem tvö af tæplega tíu stöðugildum stofnunarinnar eru. Þá eru tveir starfsmenn á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar staðsettir á Ísafirði. Gert er ráð fyrir því að fjölga stöðugildum á Ísafirði með sameiningunni. Þá er gert ráð fyrir að fastráðnu starfsfólki beggja stofnana verði boðin vinna hjá sameinaðri stofnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×