Viðskipti innlent

Embla komin með nýjar raddir frá Micros­oft

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Guðni Th, forseti Íslands, prófar snjallforritið Emblu í heimsókn sinni til höfuðstöðva Apple, Amazon, Microsoft og Open AI.
Guðni Th, forseti Íslands, prófar snjallforritið Emblu í heimsókn sinni til höfuðstöðva Apple, Amazon, Microsoft og Open AI. Aðsend

Raddstýrða snjallforritið Embla fék nýjar raddir í dag. Embla er radd-snjallforrit frá máltæknifyrirtækinu Miðeind sem skilur og talar íslensku. Embla getur svarað hinum ýmsu spurningum, til dæmis um ferðir Strætó, reiknað stærðfræðidæmi, stafsett orð, umbreytt mælieiningum og gjaldmiðlum og ýmislegt fleira.

Í tilkynningu frá Miðeind segir frá því að nýju raddir Emblu séu búnar til af erlenda stórfyrirtækinu Microsoft. Nýju raddirnar fengu íslensku nöfnin Guðrún og Gunnar. Þær byggjast að miklu leyti á raddgögnum sem safnað var á vegum Samróms undir fimm ára máltækniáætlun ríkisins.

Rúmlega 28.000 manns hafa lagt verkefninu lið með raddsýnun, frá því að Samróm hóf söfnun í október árið 2019.  „Grunnskólar, fyrirtæki og einstaklingar tóku þátt í verkefninu af miklum móð til að bjarga íslenskunni. Gagnasafn af þessu tagi getur nýst í þróun allskyns raddlausna fyrir íslensku og sömuleiðis hugbúnaðar sem eykur aðgengi að stafrænum heimi og bætir sjálfsbjörg fólks með ýmiskonar fötlun,“ segir í tilkynningunni frá Miðeind.

Embla getur svarað hinum ýmsu spurningum, til dæmis um ferðir Strætó, reiknað stærðfræðidæmi, stafsett orð, umbreytt mælieiningum og gjaldmiðlum og fleira.

Síðastliðið vor heimsótti sendinefnd, skipuð Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, Vilhjálmi Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra Miðeindar, og fleira máltæknifólki, höfuðstöðvar Apple, Amazon, Microsoft og Open AI. 

Tilgangur ferðarinnar var að vekja athygli á stöðu íslenskrar máltækni og þeim afurðum sem orðið hafa til á undanförnum árum auk þess að styrkja tengsl íslensks máltæknisamfélags við alþjóðleg fyrirtæki á sviði máltækni og gervigreindar. Í kjölfarið skoðaði Microsoft íslensku raddgögnin og nýtti þau í nýju talgervlana.

Starfsfólk Miðeindar. Máltæknifyrirtækið Miðeind stendur á bakvið Emblu.Miðeind

„Það hefur verið á stefnuskránni að skipta eldri röddum Emblu út fyrir afurðir máltækniáætlunar frá því að raddgagnasöfnunin hófst 2019. Nú vildi bara svo heppilega til að Microsoft tók að sér að hrista þessar frábæru raddir fram úr erminni með hjálp þeirra gagna sem íslenska þjóðin hefur safnað í sameiningu. Það er enginn dagur betri til að kynna þessar nýju raddir samstöðu og samvinnu en dagurinn í dag, dagur íslenskrar tungu,“ segir Katla Ásgeirsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri Miðeindar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×