Erlent

Trump lýsir yfir framboði

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Donald Trump hefur nú lýst yfir forsetaframboði í þriðja sinn. 
Donald Trump hefur nú lýst yfir forsetaframboði í þriðja sinn.  AP Photo/Rebecca Blackwell

Donald Trump fyrrverandi forseti Bandaríkjanna tilkynnti í nótt um formlegt framboð sitt fyrir næstu kosningar árið 2024.

Trump hélt blaðamannafund á heimili sínu í Flórída þar sem hann talaði í rúma klukkustund. Hann fór yfir víðan völl eins og venjulega og gagnrýndi núverandi forseta Joe Biden harðlega.

Trump segist ætla að leiða Bandaríkin til baka á hæsta stall og sagði að hann og stuðningsmenn hans verði að bjarga Bandaríkjunum. Trump hafði ítrekað ýjað sterklega að framboði og því kemur yfirlýsingin ekki sérstaklega á óvart. Hinsvegar hafa áhrifamenn í Repúblikanaflokknum margir hverjir stigið fram síðustu daga og lýst andstöðu sinni við framboð Trumps, og ekki síður við tímasetningu yfirlýsingarinnar.

Repúblikönum gekk ekki nærri því eins vel og spáð hafði verið í þingkosningunum á dögunum og raunar er enn tvísýnt um að þeir nái völdum í fulltrúadeildinni, sem fyrir kosningar hafði verið talið einskonar formsatriði.

Þeir frambjóðendur flokksins sem Trump studdi hvað dyggilegast við bakið á í kosningabaráttunni töpuðu margir hverjir og því er það gagnrýnt að Trump lýsi yfir framboði svo snemma eftir kosningarnar.

Trump er sá fyrsti sem lýsir yfir framboði en líklegt er talið að fleiri eigi eftir að bætast í hópinn. Þar hafa verið nefndir Mike Pence fyrrverandi varaforseti Trumps og Ron DeSantis ríkisstjóri í Flórída. 


Tengdar fréttir

Beina spjótum sínum að Trump

Áhrifamenn innan Repúblikanaflokksins notuðu spjall- og fréttaþætti í Bandaríkjunum í gær til að reyna að fjarlægja sig frá Donald Trump, fyrrverandi forseta. Deilt er innan flokksins vegna slæms gengis hans í þingkosningum síðustu viku og vilja margir beina spjótum sínum að Trump.

Trump liggur undir feldi og íhugar næstu skref

Innsti hringur stuðningsmanna Donald Trump er sagður klofinn þegar kemur að því hvort forsetinn fyrrverandi ætti að tilkynna um forsetaframboð 2024 í næstu viku, eins og hann hefur gefið í skyn að hann hyggist gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×