„Ég er sannfærður um að komið sé að þeim tíma að það verður og er mögulegt að binda enda á tortímingarstríð Rússa. Þúsundum lífa yrði bjargað,“ sagði Selenskí en ítrekaði að allar viðræður yrðu að eiga sér stað á þeim forsendum að Úkraína héldi yfirráðum yfir landamærum sínum.
Forsetinn sagði ekkert afsaka hótanir Rússa um kjarnorkustríð og þakkaði G19-ríkjunum, það er að segja G20 án Rússa, fyrir að gefa það skýrt til kynna. Þá sagði hann Rússa hafa unnið að smíðum geislamengandi sprengju í Zaporizhzhia-kjarnorkuverinu, sem gæti sprungið þá og þegar.
Selenskí sakaði Rússa einnig um að hyggjast vopnvæða kuldann með stöðugum árásum á orkuinnviði landsins. Þessu ætti að svara með verðþaki á útflutningsvörur Rússa.
Meðal leiðtoga á fundinum eru Joe Biden Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína. Þeir funduðu í gær, þar sem Bandaríkjamenn sögðu þá hafa verið sammála um að kjarnorkustríð mætti aldrei brjótast út. Ekkert var minnst á þetta í umfjöllun Kínverja um fundinn.
Bandaríkjamenn segjast sannfærðir um að fundurinn muni fordæma stríðsátökin og þau áhrif sem þau hafa haft á efnahag ríkja um heim allan og stöðugleika almennt.