Formúla 1

Russell á ráspól en heimsmeistarinn ræsir þriðji

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mercedes-mennirnir George Russell og Lewis Hamilton verða saman í fremstu rásröð i brasilíska kappakstrinum í kvöld.
Mercedes-mennirnir George Russell og Lewis Hamilton verða saman í fremstu rásröð i brasilíska kappakstrinum í kvöld. Mark Thompson/Getty Images

Breski ökuþórinn George Russell verður á ráspól þegar ræst verður í brasilíska kappakstrinum í Formúlu 1 í dag eftir að hafa tryggt sér sigur í sprettkeppninni í gærkvöldi. Nýkrýndi heimsmeistarinn Max Verstappen ræsir hins vegar þriðji.

Verstappen var sá eini sem fór af stað í sprettkeppninni á millhörðum dekkjum, ef frá er talinn Nicholas Latifi á Williams. Allir aðrir ökumenn treystu á mjúku dekkinn og það virtist vera rétta ákvörðunin.

Verstappen var annar í rásröðinni þegar farið var af stað í gær á eftir Dananum Kevin Magnussen á Haas sem tryggði sér óvænt sigur í tímatökunum. Heimsmeistarinn var fljótur að koma sér fram úr Magnussen, en Russell, sem ræsti þriðji, sigldi fram úr heimsmeistaranum á mjúku dekkjunum og tryggði sér að lokum sigur.

Liðsfélagi Russell, sjöfaldi heimsmeistarinn Lewis Hamilton, kom sér einnig fram úr Verstappen og ræsir annar. Carlos Sainz á Ferrari kom annar í mark, en tekur út refsingu og ræsir því sjöundi.

Kevin Magnussen náði ekki að halda sér í efstu sætunum þrátt fyrir að hafa ræst fremstur, en hann kom áttundi í mark og nælir því í eitt stig fyrir Haas-liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×