Innlent

Veður­stofan nýjasta fórnar­lamb eftir­herma á Twitter

Árni Sæberg skrifar
Árni Snorrason er forstjóri Veðurstofu Íslands.
Árni Snorrason er forstjóri Veðurstofu Íslands. Vísir/Vilhelm

Veðurstofa Íslands biðlar til eftirhermu að hætta að nota nafn, merki og myndnotkun stofnunarinnar á Twitter.

Veðurstofan tísti beiðni sinni fyrr í dag. Þar segir að starfsmenn Veðurstofunnar hafi ekkert á móti því að fólk tísti um veður, en það sé verra að gera slíkt undir fölsku flaggi.

Nokkrar klukkustundir eru síðan Veðurstofan tísti en enn er aðgangar hermikrákunnar óbreyttur. Einungis tvisvar hefur verið tíst með aðgangi hermikrákunnar. Í öðru tístinu lofar hún upp í ermina á sér í skiptum fyrir velþóknun netverja.

Ekki alvarlegar afleiðingar miðað við atburði síðustu daga

Nokkuð hefur verið um það að fólk komi fram undir fölsku flaggi á Twitter eftir að breytingar voru gerðar á samfélagsmiðlinum. Nú getur hver sem er greitt fyrir að fá blátt hak við hlið nafns síns, sem gefur til kynna að um hinn rétta aðila sé að ræða. Þess má þó geta að hvorki Veðurstofan né hermikrákan er með slíkt blátt hak á Twitter.

Vísir greindi frá því að förnarlömb slíkra hermikráka væru meðal annarra páfinn, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, George W. Bush og lyfjafyrirtækið Eli Lilly & Co. Lyfjafyrirtækið lenti í því óláni að gerviprófíll tilkynnti að insúlín væri orðið frítt. Í kjölfarið féll virði hlutabréfa fyrirtækisins svo um munaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×