FTX er ein af stærstu rafmyntarkauphöllum heims. Fyrirtækið hefur átt undir högg að sækja frá því að Bankman-Fried skar önnur rafmyntarfyrirtæki í kröggum úr snörunni fyrr á þessu ári. Órói vegna stöðu félagsins leiddi til áhlaups þar sem viðskiptavinir leystu út milljarða dollara. Stjórnendur hafa í örvæntingu reynt að afla fjár til þess að standa undir úttektunum.
Í tilkynningu sem FTX sendi frá sér í dag kom fram að félagið hefði farið fram á að vera tekið til fjárhagslegrar endurskipulagningar á grundvelli bandarískra gjaldþrotalaga svo hægt sé að hefja sölu á eignum til að hægt sé að greiða upp í kröfur viðskiptavina. Um 130 tengd félög eru hluti af gjaldþrotaumsókninni.
Bankaman-Fried, sem skaut upp á stjörnuhimininn sem einhvers konar rafmyntargúrúi, stígur einnig til hliðar sem forstjóri. Hann er sagður verða félaginu innan handar til þess að tryggja að forstjóraskipti gangi snurðulaust fyrir sig.
Greint hefur verið frá því að yfirvöld í Bandaríkjunum og Bahama rannsaki hvort FTX hafi brotið lög um verðbréf með viðskiptaháttum sínum. Keppinauturinn Binance hætti við að kaupa félagið í vikunni og vísaði til þess að bókhald þess væri einhvers konar svarthol.