Svíar og Finnar ákváðu að sækja um aðild að NATO í sumar í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Öll aðildarríkin þurfa að samþykkja inngöngu nýrra ríkja og mættu Norðurlandaþjóðirnar strax ljóni í veginum í líki Erdogans. Ríkisstjórn hans skilgreinir samtök Kúrda sem hryðjuverkasamtök.
Nú segir Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, að ríkisstjórn hans muni hvorki styðja YPG-hersveit Kúrda í Sýrlandi né PYD-flokkinn, stjórnmálaarm þeirra, að sögn sænska ríkisútvarpsins.
YPG hefur verið bandamaður NATO og Bandaríkjahers gegn hryðjuverkasamtökunum alræmdum Ríki íslams í Sýrlandi. Tyrkir skilgreina bæði YPG og PYD sem hryðjuverkasamtök.
„Það eru of náin tengsl á milli þessara samtaka og PKK, sem er á lista Evrópusambandsins yfir hryðjuverkasamtök, til að það sé gott fyrir samband okkar og Tyrklands,“ sagði Billström í viðtali í dag.
Billström lætur ummælin falla aðeins örfáum dögum fyrir fyrirhugaðan fund Ulfs Kristerssons forsætisráðherra með Erdogan.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hvatti Tyrki til þess að láta af andstöðu sinni við aðild Finna og Svía í vikunni. Ríkin hefðu þegar gert nóg til þess að koma til móts við kröfur stjórnvalda í Ankara.
Erdogan hefur meðal annars krafist þess að Svíar og Finnar grípi til aðgerða gegn stuðningsmönnum kúrdísku samtakanna sem eru búsettir þar.