Körfubolti

Hard­en frá í mánuð hið minnsta

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hinn 33 ára gamli Harden verður frá næstu vikurnar.
Hinn 33 ára gamli Harden verður frá næstu vikurnar. Scott Taetsch/Getty Images

James Harden meiddist á hægri fæti í tapi Philadelphia 76ers gegn Washington Wizards í NBA deildinni í körfubolta á dögunum. Hann verður frá í mánuð hið minnsta vegna meiðslanna.

Philadelphia 76ers var spáð góðu gengi fyrir tímabilið en Harden mætti líkt og nýr maður inn í undirbúningstímabilið. Hann var búinn að skafa af sér aukakílóin - þó það megi deila um hvað þau voru mörg - og virtist tilbúinn að berjast um titilinn.

Tímabilið fór þó ekki vel af stað og Philadelphia tapaði fyrstu þremur leikjunum. Þeir höfðu hins vegar unnið fjóra og tapað aðeins einum þegar kom að leiknum gegn Wizards á miðvikudaginn var.

Kristaps Porziņģis og Bardley Beal voru með sýningu og 76ers töpuðu með tíu stiga mun. Harden spilaði 35 mínútur í leiknum, skoraði 24 stig og gaf tíu stoðsendingar. Er það nokkurn veginn á pari við frammistöður hans til þessa en Harden er með 22 stig að meðaltali í leik, tíu stoðsendingar og sjö fráköst.

Ljóst er að Philadelphia mun sakna Harden og í raun má liðið ekki við því að missa hann út í jafn langan tíma og raun ber vitni. Aðallega því baráttan um sæti í úrslitakeppninni ætlar að vera hörð í Austurdeildinni. Philadelphia er sem stendur í 8. sæti með fjóra sigra í níu leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×