Körfubolti

Tindastóll á sigurbraut á ný

Smári Jökull Jónsson skrifar
Pétur Rúnar Birgisson sneri aftur í lið Tindastóls í kvöld eftir fjarveru vegna meiðsla.
Pétur Rúnar Birgisson sneri aftur í lið Tindastóls í kvöld eftir fjarveru vegna meiðsla. Vísir

Tindastóll lagði Stjörnuna að velli í Subway-deild karla í körfuknattleik í kvöld en leikið var á Sauðárkróki. Lokatölur 98-89 og Tindastóll því kominn á sigurbraut á ný eftir tvö töp í deildinni í röð.

Leikurinn í kvöld var jafn og liðin skiptust á að hafa forystuna í fyrri hálfleik. Tindastóll hafði endurheimt menn úr meiðslum en Sigtryggur Arnar Björnsson og Pétur Rúnar Birgisson voru báðir komnir aftur á gólfið eftir fjarveru í síðustu leikjum.

Að loknum fyrri hálfleik var staðan 48-44 gestunum í vil og leikurinn galopinn.

Í þriðja leikhluta náðu heimamenn hins vegar frumkvæðinu og komust mest níu stigum yfir. Stjarnan beit þí í skjaldarendur í lok fjórðungsins og fyrir lokafjórðunginn var staðan 72-69 og spennandi tíu mínútur framundan í Síkinu.

Þar var það Tindastóll sem hafði betur. Stjarnan jafnaði í stöðunni 74-74 en því svöruðu heimamenn með níu stigum í röð og náðu góðri forystu. Þann mun náðu Garðbæingar aldrei að brúa og heimamenn kláruðu leikinn á vítalínunni.

Lokatölur í Síkinu 98-89.

Antonio Woods átti frábæran leik í liði Tindastóls og skoraði 36 stig og þar af fimm þriggja stiga körfur. Sigtryggur Arnar Björnsson skoraði 17 stig líkt og Ragnar Ágústsson.

Hjá Stjörnunni var Robert Turner stigahæstur með 37 stig en Julius Jucikas skoraði 12 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×