Fjallað hefur verið um dýraníð í Borgarfirði hér í Vísi í sumar og í haust. Eigendur hrossa og kúa eru sakaðir um alvarlega vanrækslu og hefur Matvælastofnun þurft að aflífa einhver hrossana.
Mikil umræða hefur verið um málið á samfélagsmiðlum og hafa einhverjir sakað starfsmenn stofnunarinnar um algert aðgerðaleysi. Þeir hafi brugðist dýrunum með því að bregðast ekki við ítrekuðum ábendingum fólks um aðbúnað dýranna.
Í tilkynningu á vef MAST er minnt á að stofnuninni er ekki heimilt að tjá sig um tiltekin mál en lög um vinnslu persónuupplýsinga og stjórnsýslulög takmarka heimildir MAST til upplýsingagjafar. Því sé ekki hægt að upplýsa aðila sem senda inn ábendingar til MAST um framgang mála hjá einstaklingum.
„Vegna óvæginnar orðræðu í garð starfsfólks stofnunarinnar sér stofnunin sig þó knúna að grípa til nokkurra andsvara og reyna að skýra verkferla sína frekar og fara almennt yfir þær raðir aðgerða sem gripið er til í málum er varða velferð dýra, þótt ekki séu þær ávallt sýnilegar almenningi,“ segir í tilkynningunni.
Farið er yfir verkferla stofnunarinnar í málum sem þessu. Fyrst fá umsjáraðilar tækifæri til að bregðast við ábendingum um nauðsynlegar úrbætur. Sé það ekki gert getur MAST beitt þvingunum til að knýja fólk til úrbóta, til að mynda með dagsektum. Þessu öllu fylgja fjölmargar eftirlitsheimsóknir á viðkomandi bæi og mikil og ítarleg afskipti af starfsemi viðeigandi aðila.
Ekki er gripið til vörslusviptingar nema að vel ígrunduðu máli og að fyrrnefndar leiðir stofnunarinnar séu fullreyndar. Því var vörslusvipting á hestum íbúanna í Borgarfirði ekki fyrsta aðgerð stofnunarinnar.
Líkt og hefur komið fram hér á Vísi hefur Ríkisendurskoðun hafið úttekt á störfum MAST þegar kemur að eftirlit með velferð dýra. Í tilkynningunni segir að stofnunin fagni úttektinni og ef að í ljós kemur að eitthvað megi betur fara verði verklagi breytt.