Skoðun

Gott fjar­skipta­sam­band er for­senda bú­setu­öryggis

Bjarni Jónsson skrifar

Við fögnum þeim skrefum sem stigin eru í að bæta farsímasamband í sveitum landsins. Aukinn kraft þarf hins vegar að setja í þá sjálfsögðu innviðauppbyggingu. Það er órofa hluti búsetuöryggis að fá notið fjarskipta en einnig að taka þátt í nútíma samfélagi.

Við erum reglulega minnt á óviðunandi aðstæður fólks í fjölmiðlum . Nú síðast ákall skagfirskra bænda þar sem fram kom að sum þeirra þurfa að keyra a.m.k. sex kílómetra til að ná farsímasambandi og að þar sem heimasíminn er tengdur ljósleiðara eru þau algjörlega háð rafmagni til að vera í sambandi við umheiminn. Ástand sem er fullkomlega óásættanlegt á 21. öldinni og varðar þar að auki öryggi fólks.

Þó úrbætur séu í kortunum er þó enn langt í land að farsímasamband nái til allra heimila. Því má ekki gleyma að slíkt samband er öryggisatriði og hluti af grunn innviðum samfélagsins sem öll ættu að hafa aðgang að, óháð búsetu.

Nú er það svo að fjarskiptaöryggi víða um land er ótryggara nú en það var fyrir tuttugu árum þar sem sími í gegnum koparlínur hefur víða verið aftengdur áður en að almennilegt farsímasamband er komið á svæðið. Staðreyndin er sú að eftir að símkerfinu var breytt og m.a. NMT-símakerfinu lokað og því lofað að hið nýja farsímakerfi sem við tæki, myndi gera allt miklu betra, er raunin að svo er ekki. Einkarekin farsímafyrirtæki sjá ekki hag sinn í að tryggja farsímasamband á öllum svæðum þar sem mikill kostnaður fylgir því og þrátt fyrir að Fjarskiptasjóður stjórnvalda hafi stigið inn með fjármagn á einhverjum svæðum, er langt í land að tryggja öryggi og aðgengi allra.

Ekki er síður mikilvægt að hraða tryggingu farsímasambands á öllum þjóðvegum ekki síst á fjallvegum og þar sem ekið er daglega með skólabörn. Nýlegt dæmi þar sem mjög illa hefði geta farið, er þegar tveir sátu fastir í bíl sínum í tvo sólarhringa á Kollafjarðarheiði.

Þessir grunninnviðir hafa grundvallarhlutverki að gegna fyrir almannaöryggi og uppbygging þeirra á að vera órjúfanlegur hluti af þjóðaröryggisstefnu Íslands. Í dag er fjarskiptakerfið ekki skilgreint sem öryggisfjarskiptakerfi en til þess að tryggja öryggi allra hvort sem er á þjóðvegum, fjallvegum eða í dreifbýli skiptir máli að svo sé.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×