Innlent

Sprengisandur: Veðurfarsbreytingar, vinnumarkaður og formennirnir til umræðu í dag

Samúel Karl Ólason skrifar
Sprengisandur hefst klukkan 10. Kristján Kristjánsson stýrir þættinum að venju.
Sprengisandur hefst klukkan 10. Kristján Kristjánsson stýrir þættinum að venju.

Þjóðmálaþátturinn Sprengisandur er í beinni útsendingu á Bylgjunni og hér á Vísi frá klukkan tíu til tólf alla sunnudaga. Í þættinum fær Kristján Kristjánsson til sín góða gesti og fer yfir þau málefni sem eru efst á baugi í samfélaginu hverju sinni.

Halldór Björnsson, einn okkar helsti sérfræðingur um samspil veðurs, hafs og loftslags ætlar að byrja og fjalla m.a. um nýjar rannsóknir sem sýna fram á að markmið Parísarsamkomulagsins hangi á algerum bláþræði.

Svo koma þau Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og takast á um tilgang og markmið hugmynda um félagafrelsi á vinnumarkaði en frumvarp þess efnis liggur nú fyrir Alþingi.

Um klukkan ellefu mætir svo Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins sem líklegast á von á mótframboði í embætti formanns á landsfundi um næstu helgi. Hann fer yfir sviðið, ÍL málið og fleiri mál sem brenna á þessa dagana.

Í lok þáttar mæta greinendurnir Björn Ingi Hrafnsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson, þeir ætla að fjalla um átakalínur í stjórnmálunum, um stöðu nýs formanns Samfylkingarinnar og þá endurskoðun sem þar stendur fyrir dyrum og auðvitað líka um áhrif sem (sennilegt) framboð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar til formanns Sjálfstæðisflokksins kann að hafa þar á bæ og víðar.

Fylgjast má með þættinum í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×