Innlent

Fjórir ákærðir í stóra kókaínmálinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lagt var hald á efnin í Hollandi og þeim skipt út fyrir gerviefni.
Lagt var hald á efnin í Hollandi og þeim skipt út fyrir gerviefni.

Héraðssaksóknari hefur ákært fjóra menn í langstærsta kókaínmáli sem upp hefur komið á Íslandi. Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir mönnunum í dag.

RÚV greinir frá en Anna Barbara Andradóttir, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara staðfestir í samtali við fréttastofu.

Mennirnir fjórir hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því sumar. Þeir eru grunaðir um að reyna að smygla tæpum hundrað kílóum af kókaíni til landsins í sumar.

Kókaínið var sent í timbursendingu frá Brasilíu í ágúst en sendingin fór fyrst til Hollands. Þar fundu tollverðir kókaínið og skiptu því út fyrir gerviefni.

Sendingin var svo send áfram og var maður sem tók þau úr gámnum hér á landi handtekinn. Eftir það voru þrír aðrir handteknir en allir hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan. Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald síðar í dag.

Fram kom í fréttum í sumar að götuvirði fíkniefnanna væri um tveir milljarðar króna.

Fyrir þetta mál var stærsta einstaka haldlagning lögreglunnar á kókaíni hér á landi frá 2016, þegar lögreglan fann sextán kíló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×