Musk skrifaði í apríl undir samning um að kaupa Twitter á 44 milljarða dala, eða 54,2 dali á hlut. Skömmu síðar lýsti hann þó því yfir að hann væri hættur við kaupin.
Eftir miklar deilur, málaferli og viðræður um afslátt tilkynnti Musk að hann myndi standa við kaupsamninginn.
Frá því Musk skrifaði undir samninginn hefur virði hlutabréfa Twitter lækkað töluvert. Undanfarna daga hefur það þó hækkað nokkuð og er nú nálægt því að vera 54 dalir á hlut, eins og kaupsamningurinn segir til um.
Musk birti í gær myndband af sér með áðurnefndan vask í fanginu.
Við myndbandið skrifaði hann á ensku: „Entering Twitter HQ – let that sink in!“ sem á íslensku þýðir: „Mættur í höfuðstöðvar Twitter. Meltið það!"
Tilgangur vasksins er nokkuð óljós og er útlit fyrir að Musk hafi haldið á honum eingöngu til að segja brandara, ef svo má kalla. Orðið sink þýðir í þessu samhengi „vaskur“ eða „handlaug“.
Musk hefur einnig breytt texta á Twitter-síðu sinni og stendur þar nú: „Chief Twit“, sem lauslega þýðir „Yfir-tístari“.
Entering Twitter HQ let that sink in! pic.twitter.com/D68z4K2wq7
— Elon Musk (@elonmusk) October 26, 2022
Við myndbandið skrifaði Musk einnig að hann hefði hitt mikið af áhugaverðu fólki í höfuðstöðvunum. AP fréttaveitan bendir á að Musk hafi áður haldið því fram að breyta ætti höfuðstöðvunum í neyðarskýli fyrir heimilislausa vegna þess hve margir starfsmenn Twitter ynnu heiman frá.
Þá hafa fregnir borist af því að Musk ætli sér að segja upp stórum hluta starfsmanna fyrirtækisins.
Bankar byrjaðir að senda Musk peninga
Auðjöfurinn ætlar að taka Twitter af markaði. Hann fjármagnar stóran hluta yfirtökunnar með bankalánum en hefur einnig selt hlutabréf í rafbílafyrirtækinu Tesla. Mestur auður Musks, sem er talinn auðugasti maður heims, er bundinn í hlutabréfum Tesla.
Þá hafa greinendur sagt að við yfirtöku Musks muni skuldir Twitter stigmagnast og vaxtagreiðslur muni hækka úr um það bil 51 milljón dala í fyrra í rúman milljarð á næsta ári.
Sjá einnig: Skuldir Twitter stigmagnast við yfirtöku Musks
Wall Street Journal segir að bankarnir sem fjármagna kaup Musks á Twitter séu byrjaðir að senda honum peninga en um þrettán milljarða dala er að ræða. Á meðal bankanna sem lána Musk eru Morgan Stanley, Bank of America og Barclays.
Frá því í apríl hefur Musk selt hlutabréf í Tesla fyrir rúma fimmtán milljarða dala og er það talið vegna kaupa hans á Twitter. Enn er þó nokkuð óljóst hvaða fjárfestar það eru sem munu koma að kaupunum með Musk og hvað þeir ætla að leggja til yfirtökunnar.