Árborg var að fá endurvottun á jafnlaunakerfinu ÍST – 85:2012 eins og það kallast, og þar voru svo sannarlega jákvæðar fréttir því engin launamunur mælist nú á grunnlaunum karla og kvenna, sem starfa hjá sveitarfélaginu. Bæjarstjórinn, Fjóla Kristinsdóttir er í skýjunum með þessa niðurstöðu.
„Við erum bara gríðarlega stolt af þessu afreki því að þetta er náttúrulega það sem að stór fyrirtæki og sveitarfélög verða að gera samkvæmt lögum, að fá þessa vottun og við erum bara gríðarlega stolt af því að hafa náð þessu. Þetta er í rauninni ótrúlegt miðað við það að við séum með svona stóran vinnustað,“ segir Fjóla
Hvernig farið þið að þessu?
„Ég ætla ekki að reyna að eigna mér þetta en þetta er bara okkar frábæra starfsfólk, sem er búið að vera að vinna að þessu hörðum höndum.“
Í dag vinna um þúsund starfsmenn hjá sveitarfélaginu en það hallar töluvert á karlmenn þegar kynjahlutfallið er skoðað á vinnustaðnum, konurnar eru mun fleiri. En að grunnlaun allra starfsmanna séu þau sömu, það er það, sem Fjóla er stoltust af í dag þegar Sveitarfélagið Árborg er annars vegar.
„Þetta er gríðarlega flottur árangur og ég er bara svakalega stolt af þeim og stolt af okkur,“ segir Fjóla.
