Þetta er niðurstaða Landsréttar sem staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis í gær.
Málið má rekja til þess að í júní 2018 stöðvaði lögregla för ökumanns sem ekið hafði númerslausum bíl á allt að 141 kílómetra hraða á Vesturlandsvegi í átt að Suðurlandsbraut.
Eftirförin, sem lesa má í dómi héraðsdóms að hafi verið nokkuð æsileg, átti sér stað í drjúgan tíma. Reyndi lögregla meðal annars að aka á bifreiðina til þess að freista þess að stöðva för mannsins. Það tókst ekki fyrr en að maðurinn ók framan á lögreglubíl við Stekkjarbakka í Reykjavík. Lögreglubílnum hafði verið komið fyrir á miðjum veginum sem vegartálma. Annar lögreglubíll sem veitti ökumanninum eftirför skemmdist einnig í árekstrinum.
Lögreglubílarnir voru óökuhæfir eftir þetta og krafðist Ríkislögreglustjóri þess að fá tjónið bætt úr ábyrgðartryggingu bílsins sem veitt var eftirför. Sjóvá hafnaði hins vegar kröfunni. Málið fór fyrir héraðsdóm sem á síðasta ári úrskurðaði að Sjóvá bæri að bæta tjónið sem varð á lögreglubílunum.
Málinu var áfrýjað til Landsréttar sem komst að niðurstöðu í gær. Dómurinn staðfesti dóm héraðsdóms og ber Sjóvá því fulla og óskipta bótaskyldu vegna málsins.