Erlent

Segir Rússa hafa í hyggju að eyðileggja 400 kílómetra áveitu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Írönsku drónarnir eru hægfara og auðvelt að skjóta þá niður en þeir eru líka ódýrir og geta valdið mikilli eyðileggingu þegar þeir ná skotmarki sínu.
Írönsku drónarnir eru hægfara og auðvelt að skjóta þá niður en þeir eru líka ódýrir og geta valdið mikilli eyðileggingu þegar þeir ná skotmarki sínu. AP/Roman Hrytsyna

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir Rússa hafa í hyggju að eyðileggja vatnsaflsvirkjun og stíflu í austurhluta Kherson-héraðs, þar sem Úkraínumenn hafa sótt hart gegn innrásarhernum.

Forsetinn segir rússneskar sveitir hafa komið fyrir sprengjum við stífluna og allt áveitukerfið, sem spannar um 400 kílómetra, sé í hættu. Ef Rússum tækist ætlunarverk sitt væri úti um Norður-Krímskaga skurðinn, sem myndi hafa hörmulegar afleiðingar í för með sér.

Selenskí segir eyðileggingu vatnsaflsvirkjunarinnar og stíflunar jafngilda notkun kjarnorkuvopna.

Breska varnarmálaráðuneytið segir í daglegri stöðuuppfærslu um átökin í Úkraínu að yfirlýsingar Rússa og Hvít-Rússa um aukinn viðbúnað á landamærunum að Úkraínu hafi líklega verið ætlað að fá Úkraínumenn til að dreifa liðsafla sínum og senda fleiri sveitir að landamærunum.

Þá hafa Bandaríkjamenn lýst því yfir að Íranir komi nú að átökunum með beinum hætti, með því að hafa sent mannafla til Krímskaga til að þjálfa Rússa í notkun íranskra dróna og veita þeim tæknilegan stuðning. Þeir telja þó ekki að Íranir séu bókstaflega að fljúga drónunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×