Neytendur

Heim­kaup að meðal­tali lengst frá lægsta verði

Bjarki Sigurðsson skrifar
Heimkaup voru að meðaltali lengst frá lægsta verði í verðkönnun ASÍ.
Heimkaup voru að meðaltali lengst frá lægsta verði í verðkönnun ASÍ.

Heimkaup var að meðaltali lengst frá lægsta verði í verðkönnun verðlagseftirltis ASÍ á matvöru. Bónus var oftast með lægsta verðið.

Verðkönnun ASÍ var framkvæmd mánudaginn 17. otóber og niðurstöður hennar kynntar í dag. Í ljós kom að vörur Heimkaup eru að meðaltali 34 prósentum hærri í verði en lægsta verð. Þrátt fyrir það var verslunin ekki oftast með hæsta verðið heldur Iceland. 

Iceland var með hæsta verðið í 51 tilfelli og Heimkaup í 45 tilfellum. Bónus var með lægsta verðið í 86 tilfellum en krónan í tuttugu tilfellum. 

Samkvæmt könnun ASÍ má finna mikinn mun á hæsta og lægsta verði í öllum vöruflokkum og oft á algengum og mikið keyptum vörum. Nefnt er dæmi um 34 prósenta mun á verði brauðosts hjá Bónus og Iceland og fjörutíu prósenta mun á verði á Lífskorn brauði í sömu verslunum. 

Mikill munur er oft á hæsta og lægsta verði á grænmeti og ávöxtum. 110 prósent munur var á verði banana í könnuninni, 35 prósenta munur á íslenskum gullauga kartöflum og 303 prósent munur á rauðlauk. 

ASÍ gerir athugasemd við verðmerkingu hjá sumum verslunum. Í niðurstöðum könnunarinnar segir að víða séu vörur ekki verðmerktar og að skortur á verðmerkingum slævi verðvitund neytenda.

 Hér fyrir neaðn má lesa nánar um könnun ASÍ.

Ýmsar aðferðir eru til að varpa ljósi á niðurstöður í verðkönnunum með mörgum vörum og verslunum. Til að skýra betur verð hjá þeim verslunum sem eru hvorki oft með hæsta né lægsta verðið í verðkönnun og finna út meðalverð má reikna út hlutfallslegt frávik frá lægsta verði hverrar vöru. Þannig raðast verslanirnar eftir því hversu langt verð á vörum í könnuninni er að meðaltali frá lægsta verði.

Í könnuninni var hilluverð á 133 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. Könnunin var framkvæmd á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Nettó Lágmúla, Bónus Selfossi, Krónunni Grafarholti, Fjarðarkaupum, Iceland Seljabraut, Hagkaup Garðabæ, Kjörbúðinni Hellu og á Heimkaup.is.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×