Erlent

Fimm­tíu metra kafli Nord Stream 1-leiðslunnar eyði­lagður

Atli Ísleifsson skrifar
Lekarnir úr leiðslunum uppgötvuðust þann 26. september síðastliðinn.
Lekarnir úr leiðslunum uppgötvuðust þann 26. september síðastliðinn. Getty

Nýjar neðansjávarmyndir úr Eystrasalti benda til að um fimmtíu metra kafli gasleiðslunnar Nord Stream 1 í Eystrasalti sé eyðilagður.

Það er sænska blaðið Expressen sem birtir myndirnar sem teknar voru á áttatíu metra dýpi í samstarfi við norskan sérfræðing á sviði neðansjávarljósmyndunar. Má þar sjá bæði leifar af stálleiðslunni sem og ónýtt steypustyrktarjárn.

Fréttir bárust af því í september að gas hafi byrjað að leka úr leiðslunum Nord Stream 1 og 2 austur af dönsku eyjunni Borgundarhólmi. Bárust myndir af því hvernig gasbólur streymdu upp úr sjónum á um hundrað metra kafla á yfirborði sjávar.

Ljóst má vera að skemmdarverk voru unnin á leiðslunum og hafa margir bent á rússnesk stjórnvöld þó að þau neiti því að hafa nokkuð með skemmdarverkin að gera. Dönsk stjórnvöld staðfestu í yfirlýsingu í morgun að skemmdirnar á leiðslunum hafi orðið af völdum sprenginga.

Nord Stream 1 var tekin í notkun árið 2011, en í byrjun september lokuðu rússnesk stjórnvöld á gasflutning um leiðsluna og vísuðu þar til tæknilegra vandræða. Framkvæmdum við Nord Stream 2 lauk á síðasta ári en hún hefur þó aldrei verið tekin í notkun, fyrst og fremst vegna innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu.

Stjórnvöld í Svíþjóð, Danmörku og Þýskalandi hafa öll hafið rannsókn á skemmdarverkunum á Nord Stream 1 og 2.


Tengdar fréttir

Segja gas hætt að leka úr Nord Stream leiðslunum

Rússneska orkufyrirtækið Gazprom segir að þrýstingur í Nord Stream leiðslunum í Eystrasaltinu sé kominn í jafnvægi eftir að leki kom upp í síðustu viku. Verið sé að vinna í að takmarka skaðleg áhrif á umhverfið en gas sé hætt að leka úr leiðslunum. 

Sást til rússneskra herskipa nærri lekastaðnum í vikunni

Evrópskar öryggisstofnanir eru sagðar hafa fylgst með ferðum rússneskra herskipa nærri staðnum þar sem lekar komu á Nord Stream-gasleiðslurnar í Eystrasalti í vikunni. Atlantshafsbandalagið telur að um skemmdarverk hafi verið að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×