Maxwell veitti á dögunum sitt fyrsta viðtal úr FCI Tallahassee-fangelsinu í Flórída, þegar hún ræddi við heimildamyndarmyndasmiðinn Daphne Barak. Þar ræddi hún meðal annars um samband sitt við Andrés , sem var sviptur öllum konunglegum titlum sínum eftir að upp komst um tengsl hans við Epstein, sem svipti sig lífi í fangaklefa í New York árið 2019.
„Ég vorkenni honum mikið. Ég fylgist vel með því sem hann hefur lent í,“ sagði Maxwell meðal annars. Hún er sögð hafa virst nokkuð forviða þegar henni var tjáð að lögmenn Andrésar hafi haldið því fram að þau tvö hafi aldrei átt í sérlega nánu vinasambandi.

„Ég skil að vinskapur okkar gat ekki lifað af dóminn sem ég hlaut. Hann er að gjalda þess að tengjast mér. En ég lít á hann sem kæran vin. Mér þykir vænt um hann.“
Samkvæmt Guardian munu ummæli Maxwell koma sér illa fyrir Andrés, sem hefur ítrekað haldið því fram að þau hafi ekki tengst jafn mikið og haldið hefði verið fram í fjölmiðlum. Hin sextuga Maxwell hefur alltaf hafnað ásökununum á hendur sér.