Þann 8. október greindi Vísir frá því að Tylan Birts myndi ekki spila fleiri leiki fyrir ÍR þrátt fyrir að hafa verið atkvæðamestur í óvæntum sigri liðsins á Njarðvík í 1. umferð Subway deildar karla.
Eins og fram kom í frétt Vísis var Birts ákærður fyrir nauðgun í Missouri í Bandaríkjunum árið 2016 og játaði líkamsárás fyrri dómi ári síðar. Hann hlaut tveggja ára skilorðsbundinn dóm og þurfti að sinna 50 tíma samfélagsþjónustu auk þess að greiða 120 Bandaríkjadali vegna lífsýnatöku til sönnunar í málinu.
ÍR hefur nú fundið arftaka Birts. Sá heitir Taylor Johns og er 28 ára gamall miðherji sem hefur leikið í Slóvakíu, Ísrael, Grikklandi og Finnlandi.
Johns er væntanlegur til landsins nú eftir helgi og gæti því náð næsta leik ÍR sem er þann 21. október næstkomandi. ÍR er sem stendur í 7. sæti deildarinnar með einn sigur og eitt tap að loknum tveimur leikjum.