Rússar héldu árásum sínum á þessa innviði og óbreytta borgara áfram í morgun en eldflaugar og drónar ku hafa verið notaðar til að gera árásir á rúmlega fjörutíu borgir og bæi í dag.
Í frétt New York Times er haft eftir Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, að í þessari viku hafi árásir verið gerðar á tólf orkuver og raforkuinnviði í Kænugarði. Forsetinn sagði að búið væri að laga mikið af skemmdunum en það myndi taka meiri tíma í fjórum héruðum landsins.
AP fréttaveitan segir að sprengjum hafi rignt yfir Míkólaív í suðurhluta Úkraínu í nótt. Þar hafi ellefu ára dreng verið bjargað úr rústum húss en hann hafi verið þar fastur í sex klukkustundir. Enn er leitað að sjö sem sagðir eru hafa verið í húsinu.
Ráðamenn í Míkólaív segja S-300 flugskeyti hafa verið notað til árása á borgina en fullyrt er að árásum með þess konar flugskeytum hafi færst í aukana. Það eru þó flugskeyti sem við eðlilegar kringumstæður eru notaðar til að skjóta niður herflugvélar en hægt er að notað til ónákvæmra sprengjuárása á skotmörk á jörðu niðri.
Þetta vekur upp spurningar um hve lengi Rússar geta haldið umfangsmiklum eldflauga- og flugskeytaárásum áfram. Árásir þessar hófust í vikunni, í kjölfar sprengingar á Kerch-brúnni sem tengir Krímskaga, sem Rússar innlimuðu ólöglega árið 2014, við meginland Rússlands. Sú brú er gífurlega mikilvæg Rússum varðandi birgðaflutninga til hersveita þeirra í suðurhluta Úkraínu.
Rússar hafa hingað til átt fá svör gegn velgengni Úkraínumanna á vígvöllunum síðustu vikur og virðast þeir hafa tekið þá ákvörðun að reyna að draga úr baráttuvilja Úkraínumanna með árásum á innviði og óbreytta borgara.
Bakhjarlar Úkraínu vinna nú hörðum höndum að því að koma fleiri og betri loftvarnarkerfi svo Úkraínumenn geti betur varist þessum árásum.
Hingað til hafa loftvarnir Úkraínumanna byggt á gömlum loftvarnarkerfum frá tímum Sovétríkjanna sem úkraínski herinn átti fyrir og vopnum sem bakhjarlar Úkraínu sendu í flýti í kjölfar innrásarinnar. Þar á meðal eru Stinger-flugskeyti og önnur sovésk loftvarnarkerfi frá öðrum ríkjum Austur-Evrópu.
Úkraínumenn fengu í gær nýtt og háþróað kerfi frá Þýskalandi og stendur til að þeir fá fleiri, bæði til skamms og langs tíma.