Viðskipti innlent

Harpa og Ingólfur til ON

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ingólfur Örn Guðmundsson og Harpa Pétursdóttir eru nýir starfsmenn ON.
Ingólfur Örn Guðmundsson og Harpa Pétursdóttir eru nýir starfsmenn ON.

Harpa Pétursdóttir og Ingólfur Örn Guðmundsson hafa verið ráðin til Orku náttúrunnar. Ingólfur hefur verið ráðinn í starf forstöðumanns sölu- og viðskiptaþróunar og Harpa í starf aðstoðarkonu framkvæmdastýru. 

Harpa er lögfræðingur að mennt og hefur starfað í orkugeiranum síðan árið 2010. Þá hóf hún störf hjá Orkustofnun sem ábyrgðaraðili raforkueftirlits stofnunarinnar og síðar á öðrum lögfræðilegum málum, svo sem leyfisveitingum, eftirliti með auðlindanýtingu, gerð frumvarpa og reglugerða og ráðgjöf til stjórnvalda í orkumálum. 

Árið 2016 stofnaði Harpa félagið Konur í orkumálum og var stjórnarformaður þess í sex ár. Þá er hún jafnframt varaformaður Nordic Energy Equality Network. 

Ingólfur hefur starfað í 27 ár í alþjóðlegu umhverfi viðskiptaþróunar og markaðsmála. Lengst af starfaði Ingólfur hjá Marel, bæði í vöruþróun og við að leiða alþjóðlega uppbyggingu markaðsstarfs fyrirtækisins. 

Ingólfur hefur einnig starfað sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Skaganum 3X og unnið sem ráðgjafi fyrir íslensk og erlend fyrirtæki. Ingólfur er með B.Sc. gráðu í vöruhönnum frá Ríkisháskólanum í Ohio og MBA gráðu frá Háskóla Íslands. 

„Við erum afar ánægð með að hafa fengið þetta öfluga fólk til liðs við okkur. Ingólfur hefur mikla reynslu úr hinu alþjóðlega umhverfi sem mun nýtast okkur vel m.a. í því verkefni að laða fleiri spennandi fyrirtæki í Jarðhitagarðinn okkar. Harpa er með mikla reynslu úr orkubransanum og hefur verið að gera frábæra hluti m.a. með konum í orkumálum,“ er haft eftir Berglindi Rán Ólafsdóttur, framkvæmdastýru Orku náttúrunnar, í tilkynningu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×