Innlent

Tveir reynslu­boltar hjá Ís­lands­pósti fá bið­laun eftir langa bar­áttu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Fólkið hafði starfað hjá Póstinum i áratugi en var sagt upp í hópuppsögn haustið 2019.
Fólkið hafði starfað hjá Póstinum i áratugi en var sagt upp í hópuppsögn haustið 2019. Vísir/Vilhelm

Tveir reynslumiklir starfsmenn hjá Íslandspósti, sem sagt var upp árið 2019, fá greidd biðlaun frá fyrirtækinu eftir að hafa þurft að leita réttar síns fyrir dómstólum.

Um er að ræða karl og konu sem gegndu yfirmannsstöðum hjá Íslandspósti. Karlinum var sagt upp í fjöldauppsögn í ágúst 2019 og konunni í október sama ár. Var vísað til skipulagsbreytingar við uppsögnina.

Annað þeirra hóf störf hjá Póst- og símamálastofnun árið 1980 en hitt rúmum áratug síðar. Fyrirtækið varð að Pósti og síma árið 1997 og svo Íslandspósti. Þegar þeim var sagt upp kröfðust þau biðlauna en fengu ekki. Höfðuðu þau mál af þeim sökum.

Karlinn taldi sig eiga rétt á tólf mánaða biðlaunum og konan sömuleiðis og vísað til réttinda og skylda starfsmanna ríkisins frá því á síðustu öld, þegar fyrirtækið var ríkisfyrirtæki.

Héraðsdómur vísaði kröfu þeirra frá en Landsréttur var á öðru máli. Rétturinn horfði til þess að samkvæmt lögum um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar frá 1996 áttu fastráðnir starfsmenn stofnunarinnar rétt á sambærilegum störfum hjá hlutafélaginu, sem til stóð að stofna, enda héldu þeir réttindum hjá félaginu sem þeir hefðu áunnið sér hjá stofnuninni, þar á meðal biðlaunaréttindum. 

Segir í sömu lögum að starfsmenn sem hefðu starfað skemur en fimmtán ár hjá ríkinu áður en starf þeirra var lagt niður ættu rétt á sex mánaða biðlaunum en þeir sem starfað hefðu lengur en það ættu rétt á tólf mánaða biðlaunum. Konan hafði, þegar Póstur og sími varð að Íslandspósti starfað skemur en fimmtán ár hjá ríkinu en hélt því fram í kröfu sinni að þar sem hún hefði starfað hjá Íslandspósti, sem væri opinbert hlutafélag, til ársins 2019 væri hún komin yfir fimmtán ára markið. 

Dómurinn féllst ekki á þá kröfu og henni voru dæmd sex mánaða biðlaun. Maðurinn hafði hins vegar starfað mun lengur hjá stofnuninni og mat dómurinn það svo að hann ætti rétt á tólf mánaða biðlaunum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×