Erlent

Segist ætla að efla rétt kvenna með því að leggja jafn­réttis­ráðu­neytið niður

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Yoon segir það munu efla réttindi kvenna að leggja niður jafnréttisráðuneytið.
Yoon segir það munu efla réttindi kvenna að leggja niður jafnréttisráðuneytið. epa/Chung Sung-Jun

Yoon Suk-yeol, forseti Suður-Kóreu, hefur varið þá ákvörðun sína að leggja niður jafnréttismálaráðuneyti landsins. Heldur forsetinn því fram að ákvörðunin muni í raun verða til þess að efla réttindi kvenna.

Aðrir eru ekki sannfærðir og gera má ráð fyrir að ákvörðunin muni mæta mikilli andstöðu, meðal annars á þinginu, þar sem frjálslyndir eru í meirihluta.

Yoon hefur sakað ráðuneytið um að koma fram við alla karlmenn eins og „mögulega kynferðisbrotamenn“ og heitið því að herða viðurlög við fölskum ásökunum um kynferðisbrot. 

Aðgerðasinnar segja þetta munu verða til þess að enn færri konur stigi fram þegar brotið er á þeim.

Forsetinn segir ákvörðunina um að leggja niður ráðuneytið munu verða til þess að efla vernd kvenna, fjölskyldna og barna. 

Stjórnvöld hafa hins vegar verið harðlega gagnrýnd fyrir að taka ekki á kynferðisbrotum og þá er launamunur kynjanna hvergi meiri innan OECD heldur en í Suður-Kóreu þar sem konur fá um þriðjungi lægri laun en karlmenn.

Innanríkis- og öryggismálaráðherrann Lee Sang-min sagði fyrr í þessari viku að það ætti að vera stefna stjórnvalda að tryggja jafnrétti beggja kynja og gagnrýndi núverandi áherslu á réttindi kvenna. Hann sagði að verkefni jafnréttisráðuneytisins myndu deilast niður á önnur ráðuneyti og þá stæði til að setja á fót nýja stofnun um mannfjölda, fjölskyldur og jafnrétti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×